Sjómælingabáturinn Baldur við sjómælingar á Vestfjörðum
Sjómælingabáturinn Baldur er nú við sjómælingar á Vestfjörðum. Vinnur áhöfnin að dýptarmælingum fyrir nýtt sjókort af svæðinu sem mun ná frá Bjargtöngum og norður í Ísafjarðardjúp. Eru mælingasvæðin í grennd við Kópanes annars vegar og frá Súgandafirði og inn með Stigahlíð hins vegar.
Við sjómælingar vegna sjókortagerðar er fylgt ströngum stöðlum Alþjóðasjómælingastofnunarinnar sem kveður á um nákvæmni í staðsetningum og dýptarmælingum. Flóðmælar eru meðal annars settir upp í höfnum í grennd við mælingasvæðin svo unnt sé að leiðrétta dýptarmælingarnar út frá sjávarstöðu. Einnig þarf reglulega að mæla hljóðhraða sjávar til að leiðrétta mögulega skekkju í hraða hljóðbylgju dýptarmælisins og er það gert með sérstöku mælitæki sem slakað er til botns á mælingasvæðum.
Áhöfnin á Baldri hafði viðkomu á Bíldudal áður en haldið var til mælinga og undirbjó þar aðgerðir næstu vikna.![]() |
Áhöfnin á Baldri tilbúin í sjómælingar næstu vikurnar. Frá vinstri: Guðmundur Birkir Agnarsson skipstjóri, Kolbeinn Guðmundsson stýrimaður, Heiða Jónsdóttir bátsmaður og Daníel Hrafn Kristleifsson vélstjóri. |
![]() |
Kolbeinn stýrimaður og Daníel Hrafn vélstjóri við uppsetningu á flóðmæli. |