Áhafnir Þórs og Knud Rasmussen með sameiginlega æfingu

Áhafnir varðskipsins Þórs og danska varðskipsins Knud Rasmussen héldu sameiginlega æfingu í gær þar sem æfð var reykköfun, björgun úr þröngu rými og dráttur á skipi. Æfingin hófst með því að sviðsettur var eldur um borð í Þór þar sem áhöfn Knud Rasmussen kom til aðstoðar, sendi reykkafara um borð í Þór og tók svo Þór í tog. Að því loknu var dæminu snúið við og áhöfn Þórs sendi reykkafara og björgunarmenn um borð í Knud Rasmussen og tók skipið svo í tog. Æfingin gekk vel og var lærdómsrík fyrir áhafnir beggja varðskipa. 

Landhelgisgæslan og danski sjóherinn halda reglulegar æfingar sem snúa að því að tryggja öryggi á Norður-Atlantshafi. Er samstarf þetta afar mikilvægt fyrir Landhelgisgæsluna sem og danska sjóherinn. Fyrirhugaðar eru frekari æfingar á næstu mánuðum, m.a. í mengunarvörnum og hreinsun, löggæslu og fleiri þáttum.

 
 Skipverjar undirbúa sig fyrir æfingu
 
 
 
 Hlúð að "slösuðum"
 
 Knud Rasmussen með Þór í togi