Varðskipið Þór dregur grænlenskt fiskiskip til hafnar

Varðskipið Þór dregur nú grænlenska fiskiskipið QAVAK GR-21 til hafnar á Þórshöfn. Skipið var að veiða síld í flotvörpu í grænlenskri lögsögu er það fékk veiðarfæri í skrúfuna og var þá óskað eftir aðstoð Landhelgisgæslunnar. Sækist ferð Þórs ágætlega og er áætluð koma til Þórshafnar síðla í dag.

Fiskiskipið QAVAK er 1773 brúttótonn, 68 metra langt og 12,6 metrar á breidd. Að sögn skipstjórans á QAVAK höfðu veiðar þeirra gengið vel og munu þeir landa nokkrum afla af stórri og fallegri síld á Þórshöfn.

 
Fiskiskipið QAVAK er 1773 brúttótonn, 68 metra langt og 12,6 metrar á breidd.
 
Áhöfnin á Þór kemur dráttartaug á milli skipanna.