Varðskipið Týr heldur til björgunar- og eftirlitsstarfa fyrir Frontex

Varðskipið Týr siglir nú áleiðis til Spánar þar sem skipið mun starfa við leit, björg­un og eft­ir­lit fyr­ir Frontex, landa­mæra­stofnun Evr­ópu­sam­bands­ins. Í fyrstu mun skipið sinna verkefnum milli Spánar, Marokkó og Alsír en í nóvember heldur svo Týr til Ítalíu og starfar þar undan ströndum Ítalíu og Sikileyjar út árið.

Áhöfnin á Tý mætti fyrir nokkru til starfa eftir langþráð sumarfrí og hefur að undanförnu haft í nógu að snúast við þjálfun og annan undirbúning fyrir brottför. Að mörgu þarf að huga í þeim efnum, bæði er varðar aðbúnað og öryggi áhafnar sem og flóttamanna sem bjargað er um borð. Í áhöfn nú er jafnframt einn lögreglumaður en fyrr á þessu ári var í fyrsta skipti lögreglumaður í áhöfn Týs er skipið var við strendur Ítalíu og reyndist það fyrirkomulag vel. Lögreglumenn búa yfir annars konar þekkingu og reynslu sem nýtist á margan hátt við verkefni sem þessi sem bæði geta verið afar erfið og hættuleg.  

Í gær lagði áhöfnin á Tý lokahönd á undirbúning og meðal annars stóðu glaðbeittir skipverjar önnum kafnir við að raða upp fjölda bangsa og tuskudýra sem Landhelgisgæslan hefur fengið að gjöf frá bæði einstaklingum og félagasamtökum. Í verkefnum sínum fyrir Frontex hefur áhöfnin á Tý bjargað þúsundum flóttamanna, þar af fjölda barna. Oft er það svo að þau börn sem bjargað er um borð eru allslaus og hafa engin leikföng eða bangsa til að leika sér með. Þessar gjafir munu án efa gleðja lítil hjörtu en einn bangsi getur veitt mikla huggun og vernd í hugum barna. Landhelgisgæslan vill koma á framfæri kæru þakklæti til þeirra sem hugsað hafa til þessara barna með góðum gjöfum og fer varðskipið Týr nú af stað, afar vel birgt af margvíslegum leikföngum og böngsum fyrir börnin.

Georg Kristinn Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar og aðrir samstarfsfélagar hjá Landhelgisgæslunni sem og fjölskylda og vinir áhafnarinnar komu um borð til að kveðja áhöfnina áður en haldið var af stað. Meðfylgjandi myndir voru teknar við það tækifæri.

 
Georg Kristinn Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar og Einar H. Valsson skipherra spjalla og til hliðar við þá ræða málin þeir Auðunn Friðrik Kristinsson verkefnastjóri á aðgerðasviði og Ottó Þórðarson varðstjóri hjá lögreglunni sem er í áhöfn nú.

 
Starfsmenn Landhelgisgæslunnar kveðja áhöfnina.
 
Óskar Á. Skúlason bátsmaður (til vinstri) og Aron Karl Ásgeirsson háseti kátir með bangsa til að gleðja litlu börnin en þeir félagar hafa komið að björgun fjölda lítilla barna við störf sín.
 
 Landgangur tekinn og allt gert tilbúið fyrir brottför.
 
 Andri Leifsson stýrimaður á vaktinni.
 
 Haldið af stað í Miðjarðarhafið.