Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar eyða fallbyssukúlu sem skip fékk í veiðarfærin

Um klukkan 13:30 í dag hafði Skinney SF-20 samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar en skipið hafði þá fengið torkennilegan hlut upp með veiðarfærum er það var að veiðum um 40 sjómílur suðvestur af Reykjanestá.

Sendu skipverjar myndir af hlutnum sem sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar skoðuðu nánar og staðfestu að um fallbyssukúlu væri að ræða. Hélt Skinney til Grindavíkur þar sem sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar og lögregla tóku á móti skipinu. Var skipið rýmt og bryggju lokað meðan á aðgerðum stóð. Við nánari skoðun og mat sprengjusérfræðinganna kom í ljós að óhætt væri að flytja fallbyssukúluna til eyðingar. Fluttu sprengjusérfræðingarnir hana þá í Sandvík þar sem þeir önnuðust eyðingu hennar.