Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar æfir með heimsmeistaranum í Crossfit, Katrínu Tönju

Þyrlubjörgunarsveit Landhelgisgæslunnar getur við störf sín lent í margvíslegum og erfiðum aðstæðum og því eru æfingar einn mikilvægasti þáttur í starfsemi hennar. Ein slík æfing fór fram í dag og þá slóst í hóp með þeim þyrluköppum ein fremsta afrekskona landsins og heimsmeistari í Crossfit, Katrín Tanja Davíðsdóttir ásamt þjálfurum sínum og fylgdarliði.  

Katrín Tanja miðlaði þyrlusveitinni af reynslu sinni og fór síðan ásamt fylgdarliði með sveitinni í þyrluæfingu þar sem hún fann smjörþefinn af því hvernig það er að vera bjargað úr sjó og úr fjallshlíðum.

Farið var að Sveifluhálsi og æfð hífing úr fjalli þar sem heimsmeistarinn fékk að kynnast því hvernig það er að bíða björgunar í fjallshlíðum. Var hún svo hífð um borð í þyrluna í björgunarlykkju. Að því loknu var haldið að Kleifarvatni þar sem hópurinn synti út í og var svo bjargað af þyrlusveit Landhelgisgæslunnar. Við æfinguna var notast við björgunarnet en nauðsynlegt er að æfa notkun þess reglulega.

Æfingin gekk afar vel og hafði heimsmeistarinn á orði að það væri ekki fyrir hvern sem er að starfa við aðstæður þær sem okkar fólk starfar við. Það er svo sem ekki heldur fyrir hvern sem er að rúlla upp heimsmeistaratitli í Crossfit og vill Landhelgisgæslan þakka Katrínu Tönju og hennar fólki fyrir samstarfið í dag og um leið óska henni innilega til hamingju með afrek sín.

 
Hópurinn ásamt áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar fyrir framan þyrluna TF-SYN.
Frá vinstri talið: Hrannar Sigurðsson spilmaður og flugvirki, Andri Jóhannesson flugmaður, Viggó M. Sigurðsson sigmaður og stýrimaður, Ben Bergen, Katrín Tanja Davíðsdóttir, Evert Víglundsson, Heather Bergeron, Hrönn Svansdóttir, Sigurður Heiðar Wiium flugstjóri og Kassandra A.
 
Hitað upp fyrir verkefni dagsins.
 
Katrín Tanja fylgist með áhöfninni gera allt tilbúið fyrir brottför.
 
Hópurinn hlustar vel og vandlega á áhöfnina í samskiptakerfi þyrlunnar.
 
Katrín Tanja tilbúin að síga úr þyrlunni niður í hlíðar Sveifluhálsins.
 
Katrín Tanja og fylgdarlið bíður þyrlunnar í hlíðum Sveifluhálsins.
 
Hrannar Sigurðsson spilmaður togar Katrínu Tönju um borð.
 
Það er gott að komast um borð.
 
Katrín Tanja og hennar fólk hleypur frá þyrlunni og í átt að Kleifarvatni þar sem þau syntu út í og biðu þyrlunnar.
 
Og hér kemur sigmaður þyrlunnar, Viggó M. Sigurðsson og bjargar mannskapnum úr Kleifarvatni.
 
Hópurinn alsæll með daginn og þakkar Landhelgisgæslan heimsmeistaranum og hennar fólki kærlega fyrir samstarfið og aðstoðina í dag.