Línuskip vélarvana suður af Bjargtöngum

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst klukkan 23:36 tilkynning frá línuskipinu GRUNDFIRÐINGI sem þá var orðið vélarvana um 4 sjómílur suður af Bjargtöngum. Rak skipið í átt að bjarginu.

Þá þegar kallaði Landhelgisgæslan í togarann ÁSBJÖRN sem staddur var um 10 sjómílur suður af GRUNDFIRÐINGI. Var hann beðinn um að halda rakleiðis á vettvang til að taka GRUNDFIRÐING í tog. Auk þess var þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð út sem og björgunarskip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á Rifi og Patreksfirði.

Togarinn ÁSBJÖRN er nú kominn með GRUNDFIRÐING í tog og heldur með hann áleiðis til hafnar. Þyrla Landhelgisgæslunnar, sem komin var á vettvang, verður því afturkölluð sem og björgunarskipin frá Rifi og Patreksfirði.