Þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð út vegna leka í skipi

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst rétt fyrir klukkan tíu í morgun tilkynning frá skipi sem statt var á Deildargrunni á leið til Ísafjarðar en leki hafði komið að skipinu. Sögðu skipverjar leka vera í vélarrými og dælur hefðu ekki undan.

Eftir að ljóst varð að skipið þyrfti aðstoð kallaði stjórnstöð Landhelgisgæslunnar út þyrlu Landhelgisgæslunnar sem og björgunarskip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á Ísafirði og óskaði eftir að þeir flyttu dælur og búnað til skipsins. Fór þyrla Landhelgisgæslunnar einnig af stað með dælur til aðstoðar skipinu. Í samráði við áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar var einnig ákveðið að hafa aðra þyrlu ásamt áhöfn tiltæka í Reykjavík ef á þyrfti að halda.

Rétt áður en þyrla Landhelgisgæslunnar kom á vettvang tilkynntu skipverjar að tekist hefði að koma þremur dælum í gang og búið væri að ná stjórn á aðstæðum. Þyrlunni var þá snúið við en björgunarskip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á Ísafirði fylgdi skipinu til hafnar á Ísafirði. Fór þyrlan á Ísafjörð til að vera þar í viðbragðsstöðu ef á þyrfti að halda.

Meðan að þyrlan beið á Ísafirði kom beiðni um aðstoð þyrlu vegna slyss sem hafði orðið í Svínafellsjökli. Hélt þyrlan áleiðis þangað en var aðstoð hennar síðar afturkölluð.