Íslenskir viðbragðsaðilar tóku þátt í æfingunni Arctic Response

Í lok september fór fram æfingin Arctic Response á vestur- og austurströnd Grænlands og á Íslandi. Æfingin var hluti af því að undirbúa og þjálfa viðbragðslið Dana (Arctic Response Force) til að efla Joint Arctic Command, (herstjórn Dana á Grænlandi) í að takast á við verkefni sín á Grænlandi, þar á meðal leit og björgun, viðbrögð vegna olíuslysa og annarra verkefna til að tryggja öryggi svæðisins.

Liðsafli og búnaður Dana fór um flugskýli 831 á Öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli en flugskýlið er í umsjón og rekið af Landhelgisgæslunni. Flugskýlið var nýtt sem miðstöð fyrir flugvélar, birgðir og viðbragðsaðila. Um 180 manns og mörg tonn af búnaði fór þannig um aðstöðu Landhelgisgæslunnar á Öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Búnaðurinn var fluttur  með flugvélum og vörubílum á leið sinni milli Danmerkur og austurstrandar Grænlands með viðkomu hér á landi. Meðal annars voru fluttir tveir gúmmíbátar, þar af einn þeirra harðbotna 11 metra langur, jeppar og annar búnaður.

Flugskýli 831 á Öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli er mjög hentugt í verkefni sem þetta og komu Danir sér vel fyrir í skýlinu með flugáætlunar-, flugrekstrar- og stuðningsteymi en í skýlinu störfuðu að jafnaði um 30 manns á meðan æfingin stóð yfir. Til viðbótar Dönum og starfsmönnum Landhelgisgæslu Íslands voru stuðningsteymi og áhöfn bandarískrar Hercules flugvélar einnig með aðstöðu í skýlinu. Isavia var einnig mikilvægur hlekkur í þessu samhengi sem þjónustuveitandi flugvallarins og vegna flugleiðsögu á Norður Atlantshafinu.

Ísland nýttist einnig sem vettvangur vegna æfingarinnar og æfðu bandarísku og dönsku flugvélarnar ásamt TF-SIF, flugvél Landhelgisgæslunnar að kasta út björgunarbúnaði í vörufallhlífum, björgunarbát auk þess sem æft var fallhlífastökk og fleira. Að þessum æfingum komu bandaríski flugherinn, Flugbjörgunarsveitin í Reykjavík og Landhelgisgæslan.

Flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF tók einnig þátt í æfingunni á Grænlandi við Kong Oskars Fjord á austurströnd Grænlands þar sem æfð var greining á mengun og samskipti við Dani vegna þessa. Flugið nýttist einnig í greiningu á hafís og til eftirlitsflugs.

Meðan á æfingunni stóð var stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og NATO á Öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli samtengd við varðskip danska sjóhersins sem þá var við austurströnd Grænlands. Tilgangur þess var að æfa gagnasamskipti og skiptast á stöðumynd.

Á æfingunni fóru átta íslenskir björgunarsveitarmenn með Twin Otter flugvél frá Akureyri á austurströnd Grænlands þar sem þeir æfðu meðal annars jöklabjörgun með Sirius hundasleðateymi Dana. Þá fóru tveir eftirlitsmenn  með bandarísku flugvélinni til Meistaravíkur. Áætlað var að viðbragðssveit Landsspítalans ásamt Flugbjörgunarsveit Reykjavíkur færu einnig til Grænlands í tengslum við æfinguna en hætt var við það vegna veðurs.

Æfingin sýndi fram á mikilvæga stöðu Íslands hvað varðar björgunaraðgerðir á austurströnd Grænlands en samstarf Íslands við erlenda aðila, sérhæfða í björgunar- og eftirlitsstarfi er afar mikilvægt fyrir öryggi Íslands og Norður Atlantshafsins. Vill Landhelgisgæslan þakka Dönum fyrir að bjóða íslenskum björgunaraðilum að taka þátt í æfingunni og á sama tíma þakka íslenskum þátttökuaðilum sem og öðrum aðilum sem að æfingunni komu, en viðbrögð sem borist hafa Landhelgisgæslunni vitna í alla staði um fagmennsku og vilja til að leysa krefjandi verkefni á sem bestan hátt.

 
Dönsk Hercules vél í flugskýli Landhelgisgæslunnar á Öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli
 
Danska varðskipið Thetis í höfn í Reykjavík en þar sem flugbrautin í Meistaravík lokaðist var hluti af mannskapnum fluttur með varðskipinu frá Grænlandi
 
Ein af Hercules vélunum sem þátt tók í æfingunni
 
Á myndinni sjást flugbjörgunarsveitarmennirnir Hákon Gíslason og Eyþór Helgi Úlfarsson, þrír bandarískir hermenn og Snorre Greil frá Landhelgisgæslunni sem stýrði æfingunni fyrir hönd Landhelgisgæslunnar
 
Undir regnboganum