Bátur strandar suðvestur af Stykkishólmi
Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst um klukkan 15:14 í dag tilkynning frá bátnum Blíðu/TFVJ sem strandað hafði suðvestur af Stykkishólmi. Þrír menn voru um borð.
Þyrla Landhelgisgæslunnar var þegar kölluð út og fór í loftið stuttu síðar. Einnig voru nærliggjandi bátar kallaðir til sem og björgunarskip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar.
Nærliggjandi bátur kom fljótlega á vettvang og tókst honum að draga Blíðu á flot. Siglir báturinn nú sjálfur til hafnar í Stykkishólmi en enginn leki virðist hafa komið að honum.