Formaður landstjórnar Grænlands kynnir sér aðgerðabátinn Óðinn

Formaður landstjórnar Grænlands, Kim Kielsen sem staddur var hér á landi vegna Arctic Circle ráðstefnunnar um málefni norðurslóða, sigldi með Landhelgisgæslunni á nýja aðgerðabátnum Óðni, sem smíðaður var af fyrirtækinu Rafnar ehf fyrir Landhelgisgæsluna. Hafði formaðurinn áhuga á að kynna sér starfsemi Rafnar ehf og fékk í leiðinni kynningu á bátum frá Rafnar ehf eins og Landhelgisgæslan og Slysavarnafélagið Landsbjörg fengu afhenta fyrr á árinu. Í fylgd formannsins voru eiginkona hans sem og Kai Holst Andersen ráðuneytisstjóri utanríkismála og Pétur Ásgeirsson konsúll.

Sigurður Ásgrímsson og Jónas Karl Þorvaldsson hjá Landhelgisgæslunni fóru með formanninn og fylgdarlið hans í kynningarsiglingu. Kynntu þeir honum bátinn, eiginleika hans og víðtæka notkun hjá Landhelgisgæslunni. Þá kynntu þeir einnig samstarf Landhelgisgæslunnar við Rafnar ehf og það þróunarsamstarf sem átti sér stað við smíði bátsins.