Vökul augu varðstjóra í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar - Þór sendur á vettvang
Varðstjórar í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar stóðu vaktina í óveðurstíðinni og fylgdust vel með allri skipaumferð um miðin en reynsla þeirra og þekking á aðstæðum hefur oftar en ekki skipt sköpum í aðstæðum eins og mynduðust í veðurofsanum.
Tóku þeir meðal annars eftir því rétt rúmlega ellefu í gærkvöldi að erlent flutningaskip út af Straumsvík var farið að draga akkeri og stefndi í átt að kræklingarækt skammt frá. Höfðu varðstjórar Landhelgisgæslunnar þegar samband við skipið sem sagðist eiga í vandræðum með að ná upp akkeri skipsins og að skipið ræki undan veðurofsanum. Í ljósi þess að skipið stefndi á kræklingaeldi þar sem hætta er á að tóg gætu fests í skrúfu skipsins með tilheyrandi tjóni og slysahættu var varðskipið Þór sent áleiðis á vettvang. Rúmlega fjögur í nótt hafði skipið náð upp akkerinu og var það þá komið að mörkum kræklingaeldisins. Betur fór því en á horfðist og var Þór snúið til annarra starfa.