Gleðilegt nýtt ár - annáll Landhelgisgæslunnar 2015

  • Thor_RVK

Landhelgisgæsla Íslands óskar landsmönnum og samstarfsaðilum gleðilegs nýs árs og þakkar samfylgdina á árinu sem er að líða. Landhelgisgæslan hefur á að skipa öflugu starfsfólki sem leggur allan sinn metnað í að leysa úr þeim verkefnum sem þeim er treyst fyrir. Við þökkum landsmönnum það traust sem þeir hafa sýnt Landhelgisgæslunni og munum við áfram leggja metnað okkar í að vera til taks - með öryggi og fagmennsku að leiðarljósi. 

Hér má sjá nokkur atriði úr afar annasömu og viðburðarríku ári í starfsemi Landhelgisgæslunnar. Listinn er engan veginn tæmandi og sýnir aðeins brot af þeim verkefnum sem Landhelgisgæslan hefur annast á árinu. Njótið lestursins!

Janúar

Áhöfnin á varðskipinu Tý kom um 400 flóttamönnum til bjargar, þar af tugum barna og kvenna er það bjargaði yfirgefnu flutningaskipi sem fólkið var skilið eftir í og rak stjórnlaust á Miðjarðarhafi, undan ströndum Ítalíu. Aðstæður voru afar erfiðar, um 40 hnúta vindur og krappur sjór. Neyðarkall barst frá flutningaskipinu sem heitir Ezadeen og sigldi það stjórnlaust á fullri ferð, þar sem áhöfn skipsins virtist hafa yfirgefið það. Aðstæður um borð voru hrikalegar, fólk lá í hrúgum og vistir voru á þrotum. Áhöfn varðskipsins komst um borð í skipið, hlúði að fólkinu og freistaði þess að ná stjórn á siglingu skipsins en að lokum var skipið tekið í tog og flutti varðskipið það til hafnar á Ítalíu. Engu mátti muna í þessum aðstæðum og var þetta afar giftusamleg björgun.

 

Varðskipið Týr kemur með Ezadeen til hafnar á Ítalíu.


Febrúar

Þyrla Landhelgisgæslunnar sótti slasaðan skipverja um borð í íslenskt fiskiskip sem þá var statt utan innsiglingar til Grindavíkur. Þá sótti þyrlan einnig tvo erlenda ferðamenn norðan við Mýrdalsjökul en þeir höfðu lent í aftakaveðri og var bjargað áður en illa fór.

Þá vann áhöfnin á Tý enn eitt björgunarafrekið á Miðjarðarhafi er þeir björguðu alls 284 flóttamönnum djúpt norður af Líbýu af nokkrum litlum gúmmíbátum. Sigldi varðskipið með flóttamennina til hafnar á Ítalíu. Í hópnum var fjöldi kvenna og barna og nokkrar konur í hópnum barnshafandi.   

 
Áhöfnin á Tý bjargar fólkinu um borð í varðskipið.
 
Áhöfnin að ferja fólkið á milli og yfir í varðskipið.

Mars

Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar sótti meðal annars slasaðan vélsleðamann suður af Hlöðufelli, slasaðan sjómann í togara suðvestur af Reykjanesi og slasaðan sjómann af grænlenskum togara sem staddur var inn á Patreksfirði.

Varðskipið Þór var við eftirlit á miðunum og varðskipið Týr fagnaði 40 ára afmæli og ber aldurinn nokkuð vel!

 
Stolt áhöfn varðskipsins Týs á afmælisdegi varðskipsins.

Landhelgisgæslan virkjaði björgunarmiðstöðina í Skógarhlíð vegna tilkynningar frá Flugstjórnarmiðstöðinni í Reykjavík um að lítil einkaflugvél væri í vandræðum vegna éljagangs og sambandsleysis en síðast var vitað um vélina á flugi nálægt Borgarnesi, Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kallaði þegar út þyrlu Landhelgisgæslunnar en stuttu síðar barst tilkynning frá Flugstjórnarmiðstöðinni í Reykjavík um að þeir hefðu náð sambandi við flugvélina sem stefndi á flugvöllinn á Sauðárkrók og lenti hún þar heilu og höldnu.


Apríl

Varðskipið Þór kom flutningaskipinu Hauk til bjargar en skipið varð stjórnvana um fimm sjómílur suður af Dyrhólaey. Þór tók Hauk í tog og sigldi með hann til Hafnarfjarðar. Þrátt fyrir slæm veðurskilyrði gengu aðgerðir vel.

 
Haukur kominn í tog.
 
Skipverjar á Þór tryggja að allt gangi vel fyrir sig.

Loftrýmisgæsla Atlantshafsbandalagsins við Ísland hófst að nýju mánudaginn 13. apríl með komu flugsveitar bandaríska flughersins. Alls tóku um 200 liðsmenn þátt í verkefninu og til viðbótar starfsmenn frá stjórnstöð NATO í Uedem, Þýskalandi og fjöldi starfsmanna Landhelgisgæslunnar en verkefni sem þessi eru framkvæmd af starfsmönnum Landhelgisgæslu Íslands á Öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli.

Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar höfðu í nógu að snúast. Síðasta vetrardag fékk stjórnstöð Landhelgisgæslunnar tilkynningu frá dragnótarbátnum MAGGÝ VE-108 um að skipið hefði fengið torkennilegan hlut í nótina austur af Vestmannaeyjum og við skoðun sprengjusérfræðinga Landhelgisgæslunnar var niðurstaðan sú að um hleðslu og forhleðslu úr tundurdufli væri að ræða. Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar fóru þá þegar til Vestmannaeyja með þyrlu Landhelgisgæslunnar til móts við skipið og með aðstoð lögreglu var duflið tekið frá borði, farið með það á afvikinn og öruggan stað og því eytt.

Á sumardaginn fyrsta fékk svo stjórnstöð Landhelgisgæslunnar tilkynningu í gegnum lögreglu að sprengja hefði fundist nálægt Hafravatni. Voru sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar umsvifalaust sendir á vettvang. Við nánari skoðun þeirra var staðfest að um sprengjukúlu væri að ræða en erfitt getur verið að greina milli þess hvort um sé að ræða æfingakúlu eða kúlu með hásprengjuefni. Svæðið þar sem sprengjan fannst er gamalt skotæfingasvæði sem Bretar og Bandaríkjamenn notuðu eftir stríð. Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar tryggðu svæðið og sprengdu kúluna á staðnum.

 
Sprengjukúlan sem fannst nálægt Hafravatni á sumardaginn fyrsta.

Áhöfnin á varðskipinu Tý stóð í ströngu og bjargaði 342 flóttamönnum af litlum trébát um 50 sjómílur norðvestur af Trípólí en mikill leki var kominn að bátnum. Fjöldi kvenna og barna var í hópnum eða alls 135 konur og 27 börn. Nokkrar kvennanna voru barnshafandi.

 
Áhöfnin á Tý komin á léttabát til að bjarga fólkinu - börnum bjargað fyrst.

Maí

Áhöfnin á varðskipinu Ægi tók þátt í afar skemmtilegu verkefni sem fólst í hreinsun í friðlandi Hornstranda. Varðskipið og léttbátar þess ferjuðu sjálfboðaliða í land á Hornströndum og fluttu svo gríðarlegt magn af rusli til baka til Ísafjarðar. Þegar verkefninu var lokið hafði safnast rusl í alls 46 saltpoka. Hver saltpoki er um 1 rúmmetri og því var um að ræða ótrúlegt magn af rusli sem hent hefur verið í sjó. Sem dæmi um rusl sem týnt var upp voru gamlar netadræsur, kaðalhankir, plast, plaströr, trollkúlur og færiband úr fiskvinnsluvél fiskiskips.

 
Ótrúlegt magn af rusli var hreinsað upp.

Áhöfnin á varðskipinu Tý bjargaði 328 flóttamönnum af tveimur bátum norður af Líbýu. Um var að ræða 236 manns á trébát og hinsvegar 92 á litlum gúmmíbát. Tæplega 70 konur og börn voru í hópnum. Aðgerðir tókust vel og sigldi varðskipið með fólkið til hafnar á Ítalíu.

 
Börnin dönsuðu af gleði um borð í Tý eftir giftusamlega björgun.
 
Áhöfnin á Tý gerði að sárum þessa litla drengs sem sat sallarólegur og hélt á Landhelgisgæslublöðru.

Varðskipið Þór var við eftirlit á úthafskarfamiðunum við 200 sjómílna mörk efnahagslögsögunnar á Reykjaneshrygg og var í nógu að snúast.

 
Varðskipið Þór hefur margsannað gildi sitt við íslenskar aðstæður.

Júní

Áhöfnin á TF-SIF, flugvél Landhelgisgæslunnar var við störf á Miðjarðarhafi á vegum Frontex, Landamærastofnunar Evrópusambandsins og kom á örfáum dögum að björgun yfir 5.000 flóttamanna sem bjargað var af sökkvandi bátum sem lögðu upp frá Líbýu yfir hafið áleiðis til Ítalíu. Hlutverk flugvélar Landhelgisgæslunnar í þessum verkefnum var að greina skip og báta sem notaðir eru til að flytja flóttafólk frá Afríku til Evrópu. Eftirlitsbúnaðurinn í TF-SIF nýtist vel í aðstæðum sem þessum en með honum er mögulegt að greina litla báta í mikilli fjarlægð og áhöfnin metur svo á grundvelli upplýsinga frá myndum og hegðun bátanna hvort grunur sé á að fólk sé um borð. Áhöfn flugvélarinnar kallar síðan til nærstödd eftirlits- og björgunarskip til bjargar því fólki sem hún finnur.

 
Mynd sem tekin er af belgíska sjóhernum og sýnir yfirfullan flóttamannabát sem áhöfnin á TF-SIF sá og komið var til bjargar.

Sjómælingabáturinn Baldur var við sjómælingar á Vestfjörðum og vann áhöfnin að dýptarmælingum fyrir nýtt sjókort af svæðinu sem mun ná frá Bjargtöngum og norður í Ísafjarðardjúp.

 
Áhöfnin á Baldri tilbúin í verkefni sumarsins.

Þyrla og varðskip voru kölluð út vegna 15 tonna fiskibáts sem var vélarvana undan Straumnesi. Varðskipið Ægir tók fiskibátinn í tog og hélt með hann til Ísafjarðar.

 
Af vettvangi.

Þyrlusveitin sótti meðal annars slasaðan göngumann í sunnanverðan Vatnajökul og veikan skipverja í rússneskan togara sem var að veiðum á Reykjaneshrygg.

Júlí

Varðskipið Þór kom flutningaskipinu Lagarfoss til aðstoðar en Lagarfoss var með bilað stýri um 90 sjómílur suðaustur af Dyrhólaey. Aðgerðir gengu vel, Þór tók Lagarfoss í tog og kom með hann til hafnar í Reykjavík.

 
Varðskipið Þór með Lagarfoss í togi.

Ítarleg leit fór í gang í kjölfar neyðarkalls sem barst á rás 16 í gegnum sendi á Höfn í Hornafirði. Þyrla Landhelgisgæslunnar, lögregla og Slysavarnafélagið Landsbjörg tóku þátt í leitinni en þegar búið var að leita af allan grun um neyð á sjó og ekkert benti til að um neyð væri að ræða á landi var leit hætt og engar frekari vísbendingar bárust um málið.

Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar, TF-LIF og TF-GNA fóru í sjúkraflug á sama tíma. Önnur sótti hjartveikan sjúkling vestast á Snæfellsnes og hin hjartveikan ferðamann sem staddur var á Hornbjargi. Þá fór varðskipið Þór í Veiðileysufjörð í Jökulfjörðum til að sækja slasaða konu sem þar var á ferðalagi. Varðskipið var statt við utanvert Ísafjarðardjúp er beiðnin kom. Varðskipið sigldi með konuna til Ísafjarðar og áhöfn varðskipsins hlúði að henni í samráði við vakthafandi þyrlulækni Landhelgisgæslunnar en um borð er aðstaða til þess auk þess sem áhafnir varðskipa Landhelgisgæslunnar hafa hlotið sértæka þjálfun í meðferð slasaðra og sjúkra.

Ágúst

Flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF fór í sjúkraflug til Danmerkur með ungt barn frá Grænlandi sem koma þurfti skjótt undir læknishendur í Danmörku. Barnið hafði verið flutt til Íslands frá Grænlandi. Brást Landhelgisgæslan skjótt við og var þegar kölluð út áhöfn af frívakt til að annast verkið sem gekk vel.

 
Flugvél Landhelgisgæslunnar - TF-SIF.

Landhelgisgæslan fékk í ágúst afhentan 10 metra strandgæslubát sem smíðaður er af fyrirtækinu Rafnar ehf. Um er að ræða byltingarkennda bátasmíði sem byggir á nýrri hönnun á þessari tegund báta. Báturinn, sem hlotið hefur nafnið Óðinn, hefur mikla þýðingu fyrir Landhelgisgæsluna og eykur möguleika hennar á að sinna fjölbreyttum verkefnum sínum.

 
Aðgerðabáturinn Óðinn.

Varðskipið Þór dró grænlenska fiskiskipið QAVAK GR-21 til hafnar á Þórshöfn. Skipið var að veiða síld í flotvörpu í grænlenskri lögsögu er það fékk veiðarfæri í skrúfuna og var þá óskað eftir aðstoð Landhelgisgæslunnar.

 
Skipverjar á Þór koma taug yfir í grænlenska fiskiskipið QAVAK GR-21.

Þá var mikill erill hjá þyrlusveit Landhelgisgæslunnar sem fór í fjölda sjúkra- og björgunarfluga. Meðal annars fann áhöfnin 15 ára dreng sem týndur var á Heklu. Höfðu þá björgunarsveitir leitað piltsins síðan um eftirmiðdaginn en ekki fundið hann. Þyrla Landhelgisgæslunnar sem var með sérstakan GSM leitarbúnað, leitaði ítarlega í hlíðum fjallsins og um klukkan 22:50 fann svo áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar drenginn. Hafði hann kveikt á spjaldtölvu sinni og lét hana blikka þannig að dauft ljós sást í nætursjónaukum áhafnarinnar. Lenti þyrlan hjá drengnum og sigmaður þyrlunnar fór til hans og var hann heill á húfi. Drengurinn var fluttur um borð í þyrluna sem flaug með hann á Hellu.

 
Þyrla Landhelgisgæslunnar við störf.

September

Landhelgisgæslan bauð landsmönnum í heimsókn í flugskýli Landhelgisgæslunnar við Nauthólsvík tilefni af 60 ára flugsögu Landhelgisgæslu Íslands og að 40 ár eru liðin frá útfærslu lögsögunnar í 200 sjómílur. Hátt á þriðja þúsund manns lagði leið sína í flugskýlið til að hitta starfsfólk okkar og kynna sér starfsemina. Dagurinn var í alla staði frábær og þakkar Landhelgisgæslan öllum þeim sem kíktu við.

 
Mikið fjör var á opnum degi Landhelgisgæslunnar.

Þyrla Landhelgisgæslunnar fór í sjúkraflug til Vestmannaeyja þar sem ófært var fyrir sjúkraflugvél vegna slæms skyggnis. Þá sótti þyrlan slasaða göngukonu við Hrafntinnusker og erlendum ferðamönnum var bjargað úr sjálfheldu á Eyjafjallajökli.

Landhelgisgæslan hélt hina árlegu Northern Challenge æfingu sem er alþjóðleg æfing fyrir sprengjusérfræðinga. Æfingin er í umsjón séraðgerða- og sprengjueyðingarsveitar Landhelgisgæslunnar sem annast einnig skipulag og stjórnun hennar. Þá koma að æfingunni fjöldi starfsmanna Landhelgisgæslunnar, meðal annars á Öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Æfingin í ár var sú stærsta frá upphafi og hlaut mikið lof þátttakenda.

 
Sprengjusérfræðingar að störfum.

Október

Varðskipið Þór stóð togara að meintum ólöglegum veiðum norður af Vestfjörðum og var togaranum vísað til hafnar. Nýi aðgerðarbáturinn Óðinn kom rafmagnslausum bát til bjargar og þyrlur Landhelgisgæslunnar höfðu í nógu að snúast.

 
Þessa frábæru mynd tók Jón Páll Ásgeirsson stýrimaður. Þarna má sjá þyrluna TF-LIF við æfingu en það er engu líkara en sigmaður þyrlunnar renni sér fimlega niður Fríðarsúluna í Viðey. Hefur myndin því fengið heitið Friðarsúludans.

Nóvember

Varðskipið Þór var í afar annasömum eftirlits- og löggæsluferðum um miðin þar sem meðal annars lögð var áhersla á almennt fiskveiði- og öryggiseftirlit um borð í skip og báta.

Verkefni varðskipa Landhelgisgæslunnar eru afar fjölbreytt en fyrir utan hefðbundið eftirlit og skyndiskoðanir dró Þór meðal annars vélbilað skip í höfn á Akureyri og annaðist botnrannsóknir við Suðvesturland. Þá fóru skipverjar af Þór í land í Aðalvík og upp á Straumnesfjalli og lagfærðu AIS búnað eða sjálfvirka tilkynningarskyldu auk þess að fara í Hornbjargsvita og annast þar undirbúning og frágang fyrir veturinn. Einnig voru nokkur öldumælisdufl endurnýjuð en þau eru mjög mikilvæg fyrir sæfarendur, sérstaklega smærri skip.

Auk þessa og margra fleiri verkefna fóru skipverjar úr áhöfn varðskipsins um borð í talsvert mörg skip og báta til eftirlits. Í sex tilvikum voru skip og bátar staðin að meintum ólöglegum veiðum. Tvö þeirra voru á rækjuveiðum án tilskilinna leyfa, eitt var að veiðum án veiðileyfis, tveir að veiðum í skyndilokunum og einn með of smáa möskva í poka botnvörpunnar. Sem sagt, nóg að gera.

 
Hásetar á varðskipinu Þór binda varðskipið að aftan er það kemur að bryggju eftir annasama löggæslu- og eftirlitsferð um miðin.

Desember

Mikill viðbúnaður var hjá Landhelgisgæslunni er varðstjórar í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar heyrðu að kallað var í tvígang „MAYDAY, MAYDAY“ á rás 16, neyðar- og uppkallsrás skipa og báta. Kallið kom inn á móttökuloftnet sem staðsett er á Vaðlaheiði austan megin við Eyjafjörð. Starfsmenn Akureyrarhafnar höfðu samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og létu vita að þeir hefðu einnig heyrt kallið á rás 16 í talstöð sem staðsett er í hafnarskrifstofunni á Akureyri. Þar með var ljóst að kallið kæmi einhvers staðar frá í innan við 15 sjómílna fjarlægð frá Akureyri.  

_MG_0659 
Frá stjórnstöð Landhelgisgæslunnar í Reykjavík.

Allir helstu viðbragðsaðilar voru ræstir út sem og þyrla og flugvél Landhelgisgæslunnar. Samhæfingarstöðin í Skógarhlíð var einnig virkjuð með staðlaðri áhöfn fyrir leit og björgun á sjó. Er þyrla og flugvél Landhelgisgæslunnar voru við það að fara í loftið frá Reykjavík, tilkynnti lögreglan á Norðurlandi-eystra að uppgötvast hefði að neyðarkallið hefði komið frá erlendu skipi í höfninni og hafði maður sem átti erindi um borð viðurkennt að hafa sent það út. Leitar- og björgunareiningar voru því afturkallaðar og frekari aðgerðum hætt.

 
Mynd af ratsjárstöðinni á Bolafjalli en ratsjárstöðvarnar í hverjum landsfjórðungi og stjórnstöð Landhelgisgæslunnar í Keflavík eru mikilvægur hlekkur fyrir Landhelgisgæsluna til að hafa sem besta stöðumynd hverju sinni.

Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar vann mikið afrek er henni tókst að komast við afar erfiðar veðuraðstæður í sjúkraflug austur til að sækja nýbura sem komast þurfti undir læknishendur í Reykjavík hið fyrsta. Áhöfnin á þyrlunni freistaði þess fyrst að komast á Neskaupstað til að sækja litla barnið. Reynt var að lenda á flugvellinum á Neskaupstað en varð þyrlan frá að hverfa vegna sviptivinda sem voru allt að 70 hnútar sem eru um 35 metrar á sekúndu. Hélt þyrlan þá út fyrir annes aftur og freistaði þess að lenda á Stöðvarfirði en þar voru veðuraðstæður einnig afar slæmar. Að lokum gat þyrlan lent á Breiðdalsvík og barnið flutt landleiðina á Breiðdalsvík. Þaðan var flogið með litla barnið til Reykjavíkur með viðkomu á Höfn til eldsneytistöku. Þar voru mótorar þyrlunnar ekki stöðvaðir til að tryggja sem skjótastan tíma og til að halda góðum hita inni í þyrlunni. Lenti þyrlan svo um nóttina í Reykjavík og barnið komst undir læknishendur. Þetta flug var sönnun þess að vel þjálfuð áhöfn, fagleg stýring stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar og öflug þyrla skipta sköpum þegar aðstæður sem þessar skapast.

 
Þyrla Landhelgisgæslunnar í sjúkraflugi.


Landhelgisgæslan óskar landsmönnum gleðilegs nýs árs.