Varðskipið Þór til aðstoðar togskipi sem fékk veiðarfæri í skrúfuna

Varðskipið Þór er nú á leið að togskipinu Fróða II ÁR-32 sem statt er suðvestur af Reykjanesi. Fróði fékk veiðarfæri í skrúfuna í nótt og mun Þór draga hann til hafnar þar sem veiðarfærin verða fjarlægð.

Nærstaddur togari tók Fróða II í tog í nótt en dráttarbúnaður slitnaði ítrekað og var við því óskað eftir aðstoð varðskips. Áætlað er að varðskipið Þór verði komið á vettvang um kl. 13:00 í dag. Veðuraðstæður á staðnum eru talsvert erfiðar en vindhraði úr austri er allt að 25 metrar á sekúndu.