Landhelgisgæslan tók þátt í 112 deginum
Geysilega margt var um manninn í Smáralind á 112 daginn þegar sjálfboðaliðar Rauða krossins og Slysavarnafélagsins Landsbjargar kynntu þar fjölbreytt störf sín að björgun og almannavörnum. Erilsamt var hjá þeim sem stöðu vaktina við að kynna störf að leit, björgun, skyndihjálp, fjöldahjálp og fleiri verkefnum sem sjálfboðaliðar sinna.
Þá vakti 112 lestin verðskuldaða athygli og fjöldi fólks fylgdist með björgunarsýningu Landhelgisgæslunnar, björgunarsveitarmanna og slökkviliðsmanna SHS á bílaplaninu við Smárabíó. Ríflega 30 björgunartæki af ýmsum stærðum og gerðum voru í 112 lestinni að þessu sinni.
Fulltrúar samstarfsaðila 112 dagsins og aðrir gestir voru viðstaddir stutta athöfn sem efnt var til í göngugötunni í Smáralind. Hún hófst með ávarpi Stefáns Eiríkssonar, lögreglustjóra og stjórnarformanns 112, þar sem hann gerði störf sjálfboðaliða meðal annars að umtalsefni. Vernharð Guðnason, formaður LSS, og Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri SHS, afhentu hópi átta ára barna vegleg verðlaun fyrir þátttöku í Eldvarnagetraun LSS 2006. Loks tilkynnti Anna Stefánsdóttir, varaformaður Rauða kross Íslands, um val á skyndihjálparmanni ársins 2006 og veitti honum viðurkenningu. Skyndihjálparmaðurinn er Egill Vagn Sigurðsson, átta ára drengur sem bjargaði lífi móður sinnar með því að sýna rétt viðbrögð þegar hún missti meðvitund vegna bráðaofnæmis.
Viðbragðsaðilar um allt land efndu til dagskrár í tilefni dagsins. Víða fóru bílalestir um héruð, almenningi var boðið í opið hús og sveitir og deildir Slysavarnafélagsins Landsbjargar og Rauða krossins kynntu störf sín ásamt öðrum viðbragðsaðilum.
Útkall 2006 í Kringlunni til 16. febrúar
Vert er að vekja athygli á því að ljósmyndasýningin Útkall 2006 stendur á 1. hæð Kringlunnar til föstudagsins 16. febrúar. Þar er að finna úrval fréttaljósmynda af fjölbreyttum verkefnum lögreglu, slökkviliðs, björgunarsveita og fleiri á síðasta ári.