NEAFC námskeið LHG

  • Gylfi_laginn_vid_ad_svara_spurningum_og_skapa_umradur2

Undanfarnar vikur hafa skipstjórnarmenn af varðskipum og flugdeild Landhelgisgæslunnar sem og varðstjórar úr Vakstöð siglinga og nokkrir starfsmenn Fiskistofu setið tveggja daga námskeið er varðar störf þeirra í tengslum við fiskveiðieftirlit á vegum Norð-Austur Atlanshafs Fiskveiðiráðsins (NEAFC). Leiðbeinandi á námskeiðunum er Gylfi Geirsson forstöðumaður sem er fulltrúi og sérfræðingur Landhelgisgæslunnar í NEAFC málefnum. Honum til aðstoðar er Thorben Lund yfirstýrimaður sem hefur orðið mikla reynslu af svokölluðu NEAFC eftirliti bæði úr lofti og með varðskipum stofnunarinnar.

Gylfi_laginn_vid_ad_svara_spurningum_og_skapa_umradur2
Gylfi Geirsson forstöðumaður leiðbeinir William Jóhannssyni, Einari Sigurggeirssyni og Jóni Ebba Björnssyni sem starfa sem varðstjórar í Vaktstöð siglinga ásamt Halldóri Nellett skipherra, framkvæmdastjóra Aðgerðarsviðs Landhelgisgæslunnar.
Mynd: Grímkell Arnljótsson.

Þar sem íslensku Efnahagslögsögunni sleppir bæði suð-vestur og norð-austur af Íslandi taka við NEAFC hafsvæði en þessi svæði eru utan efnahagslögsögu ríkjanna við Norður-Atlanshafið en ýmsar þjóðir Evrópu hafa gert með sér samkomulag um sameiginlega nýtingu og um leið verndun fiskistofna innan þessara svæða. Samstarf er viðhaft varðandi eftirlit með svæðunum og mikið lagt til við það að stugga við svokölluðum sjóræningjaskipum sem veiða þar í heimildarleysi, a.m.k. gagnvart NEAFC.  Þetta eru skip sem skráð eru í löndum sem ekki eru aðilar að NEAFC eða hafa ekki gert sérstakt samkomulag við ráðið og aðildarþjóðir þess. 

Á bak við fiskveiðiheimildirnar og eftirlitið eru reglugerðir og verklagsreglur sem starfsmönnum Landhelgisgæslunnar og Fiskistofu er nauðsynllegt að kunna góð skil á og eru því námskeið haldin með reglubundnu millibili til upprifjunar og kynningar á nýjungum er varða reglugerðirnar og verklagsreglurnar.