Varðskip Landhelgisgæslunnar á leið til lands með tvo gáma Kársness í togi

Fimmtudagur 15. mars 2007.

Í gærkvöldi fékk skip Atlantsskipa, Kársnes, brotsjó á sig skammt vestur af Garðskaga. Fimm gámar fóru fyrir borð og skipið fékk talsverða slagsíðu en var þó ekki í hættu að sögn skipstjóra.  Skipið hélt för sinni áfram til Kópavogs og kom þangað kl. hálfníu.  Þar sem mikil hætta er af gámum á floti sendi Vaktstöð siglinga strax út aðvörun til skipa.

Þyrla Landhelgisgæslunnar, Líf, var send af stað í morgun til að leita að gámunum og fann tvo þeirra skömmu síðar.  Varðskip Landhelgisgæslunnar var sent á staðinn og er nú með gámana í togi á leið til lands.  Að sögn Halldórs Nellett framkvæmdastjóra aðgerðasviðs er mikilvægt að ná gámunum sem fyrst þar sem þeir ógna siglingaöryggi á svæðinu.

Dagmar Sigurðardóttir
lögfræðingur/upplýsingaftr.