Vélarvana og lekur bátur á Ísafjarðardjúpi - björgunarskipið Gunnar Friðriksson dró hann að landi

Þriðjudagur 10. apríl 2007.

Skipstjóri vélbátsins Ísbjargar ÍS-69, hafði samband við vaktstöð siglinga/stjórnstöð Landhelgisgæslunnar (VSS) kl. 10:03 á neyðarrás 16 og lét vita að báturinn væri vélarvana á Ísafjarðardjúpi og sjór kominn í vélarrúm. Ísbjörg var þá 3,5 sjómílur norðaustur af Arnarnesi.

Að sögn Ásgríms Ásgrímssonar yfirmanns vaktstöðvar siglinga kölluðu varðstjórar Landhelgisgæslunnar í VSS þegar út björgunarsveitir og björgunarskip við Ísafjarðardjúp og höfðu einnig samband við nærstaddan bát, Val ÍS-20, og báðu hann að koma Ísbjörgu til aðstoðar. Skömmu síðar tilkynnti áhöfn Ísbjargar að lensidælurnar um borð hefðu undan. 

Björgunarskipið Gunnar Friðriksson fór frá Ísafirði kl. 10:20.  Valur var kominn með Ísbjörgu í tog kl. 10:25 og þá var jafnframt búið að komast fyrir lekann. Björgunarskipið Gunnar Friðriksson tók við Ísbjörgu kl. 10:50 og var kominn til hafnar á Ísafirði um klukkustund síðar.

Ísbjörg er 6 tonna línu- og handfærabátur með tveggja manna áhöfn.

Dagmar Sigurðardóttir
lögfræðingur/upplýsingaftr.