Saumað að sjóræningjum

  • Sjóræningjaskip

Miðvikudagur 2. maí 2007.

Sjávarútvegsráðuneytið gaf út fréttatilkynningu í kjölfar fundar NorðausturAtlantshafsfiskveiðiráðsins sem haldinn var í Bergen í lok apríl. Þar kemur fram að sex sjóræningjaskipin hafa verið send til niðurrifs enda lítið hægt að nota þau eftir að þau eru sett á svarta listann hjá ráðinu.

Fulltrúar sjávarútvegsráðuneytisins, Fiskistofu og Landhelgisgæslunnar sóttu framangreindan fund Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðiráðsins í lok apríl. Landhelgisgæslan hefur sent varðskip og flugvél til eftirlits á forráðasvæði ráðsins þegar fleiri en 10 íslensk skip eru þar að veiðum og hefur Landhelgisgæslan átt þátt í að koma upp um sjóræningjaveiðar. 

Í fréttatilkynningu sjávarútvegsráðuneytisins segir:

Sjóræningjaskip tekin til niðurrifs

Samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC) verða sex af þeim skipum sem stundað hafa ólöglegar karfaveiðar á Reykjaneshrygg undanfarin ár rifin á næstunni. Íslensk stjórnvöld hafa lagt mikla áherslu á aðgerðir gegn svokölluðum sjóræningjaveiðum undanfarin misseri, m.a. í samstarfi við hin aðildarríki NEAFC.

Alls eru 20 skip á lista NEAFC yfir skip sem staðfest er að hafi stundað eða stutt við sjóræningjaveiðar. Auk umræddra sex skipa hafa níu af skipunum verið kyrrsett í höfnum NEAFC-ríkja og fimm eru í verkefnum fjarri Norður-Atlantshafi.

Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra lýsti í dag ánægju sinni með að þessi sex skip muni ekki lengur stunda ólöglegar veiðar á Reykjaneshrygg. Hann sagði það vera ljóst að aðgerðir Íslands og annarra NEAFC-ríkja hefðu gert sjóræningjaveiðarnar óhagkvæmar og erfiðar og þannig örugglega átt mikinn þátt í því að útgerðir skipanna hafi ákveðið að senda skipin til niðurrifs frekar en að halda veiðum áfram. Einar benti jafnframt á að of snemmt væri að lýsa yfir sigri í málinu og sagði að áfram yrði fylgst vel með karfamiðunum og unnið gegn sjóræningjaskipum og þjónustuaðilum þeirra, þegar og ef slík skip koma á karfamiðin í ár.

Á morgun taka gildi nýjar reglur NEAFC um eftirlit í höfnum, sem ætlað er að þrengja enn frekar að ólöglegum veiðum. Varðandi nýju reglurnar er bent á upplýsingar í fréttatilkynningu sjávarútvegsráðuneytisins frá 18. apríl og heimasíðu NEAFC, www.neafc.org.

Sjá heimasíðu sjávarútvegsráðuneytisins á slóðinni:
http://www.sjavarutvegsraduneyti.is

 

Dagmar Sigurðardóttir
lögfræðingur/upplýsingaftr.

Sjóræningjaskip 

Landhelgisgæslan stóð meðal annars sjóræningjaskipið Carmen að því að landa afla yfir í flutningaskipið Polestar.  Polestar lenti í miklum vandræðum með að losa sig við aflann en það tókst að lokum í Kína eftir miklar tafir og vandræði.