Radarmyndir frá TF-SIF mikilvægar heimildir um þróun gosstöðvanna á Eyjafjallajökli

  • Sif_Lif_BaldurSveinsson

Fimmtudagur 15. apríl 2010

TF-SIF eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar fór í flug með vísindamenn um gosstöðvarnar á Eyjafjallajökli í dag. Farið var í loftið kl. 16:56. Þetta flug var tilkomið til að athuga stöðuna á gosinu í Eyjafjallajökli en ekki hefur verið mögulegt að skoða stöðu gossins með öðrum tækjum en flugvél Landhelgisgæslunnar. Einnig var þyrlan TF-GNÁ á svæðinu til aðstoðar við að að meta hlaup sem braust út frá Gígjökli.

Radarmyndir teknar á ELTA radar TF-SIF eru einu heimildirnar sem jarðvísindamenn hafa til að sjá hvernig gosið þróast og hvert rennsli frá því fer. Náðust góðar myndir sem sýna hvernig gígarnir í jöklinum liggja, og hversu stórir þeir eru. Einnig var staðan undir Eyjafjöllum athuguð í lágflugi. Hún reyndist góð. Tilkynnt hafði verið um að Skógafoss væri orðinn litaður, og vöknuðu áhyggjur um að angi frá gosinu rynni þarmeð til austurs. Við athugun kom þó í ljós að svo virtist ekki vera. Margar ár eru litaðar á svæðinu, enda búið að vera talsvert hlýtt og miklar rigningar.

Við lok flugs komu upplýsingar um hlaup frá Gígjökli. Flogið var inn í Þórsmörk til að athuga málið og kom þá í ljós að gríðarlegt vatns/krapaflóð var að byltast út á Markarfljótsaura. Mikill hraði og hæð var á hlaupinu. Fylgdi TF-SIF hlaupinu eftir meðan flugþol leyfði. Þegar þurfti að hverfa frá hafði heldur dregið úr hraða og umfangi hlaupsins enda var það mjög krapakennt og þykkt og missti sem betur fer mesta kraftinn áður en það náði að mannvirkjum neðar við fljótið.

TF-SIF_15april2010_gigur_Eyjafjallajokuls_2.5km

Kl.1711 er þessi magnaða mynd tekin af þessari ógnandi ásjónu gosstöðvanna.

3 stærstu gosopin í gíg Eyjafjallajökuls, myndin sýnir svæði sem er 2,5 km á hvorn veg.

TF-SIF_15april2010_gigur_Eyjafjallajokuls_7.5km

Mynd af Eyjafjallajökli úr meiri fjarlægð. Breidd myndarinnar er 7,5 km. Gígur Eyjafjallsjökuls er í miðju, þar sjást þrjú stór göt sem eru 200-500 m í þvermál,
þetta eru megin gosopin.