Samantekt vegna ferða LHG erlendis fyrstu níu mánuði ársins

  • IMGP1161

Þriðjudagur 22. nóvember 2011

Í samantekt,  sem unnin var vegna fyrirspurnar á Alþingi um ferðir ríkisstarfsmanna erlendis fyrstu níu mánuði ársins 2011 og send hefur verið innanríkisráðuneytinu, kemur fram að fjölmargar ferðir hafa verið farnar á vegum Landhelgisgæslunnar á árinu.  Rétt er að útskýra þennan mikla fjölda ferða. 

Mikill meirihluti ferðanna eða 265 ferðir af 383 eru vegna erlendra verkefna sem Landhelgisgæslan hefur sinnt á árinu fyrir Frontex, landamærastofnun Evrópusambandsins og CFCA, fiskveiðieftirlitsstofnun Evrópusambandsins. Landhelgisgæslan hefur fyrst og fremst verið í þessum verkefnum til að afla tekna til að halda mannskap og tækjum í rekstri eins og komið hefur fram áður.   Voru þær ferðir allar  endurgreiddar eða sértekjur vegna þeirra stóðu undir öllum kostnaði.

Yfirlit yfir fjölda ferða starfsmanna Landhelgisgæslunnar jan - sept 2011

Fjöldi ferða starfsmanna alls   Þar af:
Endurgreitt / sértekjur
Vegna Nato  Vegna þjálfunar flugmanna   Smíði varðskips
 Almenn starfsemi
 383  265  11  37  32  38

Á árinu 2011 hefur LHG leigt út varðskipið Tý til Fiskveiðieftirlitsstofnunar Evrópusambandsins, CFCA og var verkefnið unnið á Miðjarðarhafssvæðinu, í Síldarsmugunni og á Flæmska hattinum ( Nýfundnaland) og áhafnaskipti á ýmsum stöðum. Varðskipið Ægir var í verkefnum fyrir Landamærastofnun Evrópu, Frontex frá lok maí og út október. Einkum var verkefnið unnið  við Krít og við Spán og fóru áhafnarskipti fram í Grikklandi og Spáni.Flugvélin TF SIF var í verkefnum fyrir Frontex á Ítalíu, síðan á Krít og að lokum í Senegal. Öll þessi verkefni krefjast mikilla ferðalaga og sem fyrr segir eru fargjöld vegna þeirra ýmist endurgreidd beint eða sértekjur vegna verkefnanna standa undir þeim. Hafa þarf í huga að ferðakostnaður getur verið mjög mikill, t.d. þegar 6 manna flugáhöfn er erlendis í 6 vikur með tilheyrandi hótelkostnaði, uppihaldi, flugfargjöldum og áhafnaskiptum.  Einnig kostar verulegt fé að senda 18 manna varðskipaáhöfn með flugi vegna áhafnaskipta.

Vegna hlutverka sinna á sviði leitar-, björgunar, eftirlits og auðlindagæslu á Landhelgisgæslan í ýmsu alþjóðlegu samstarfi sem felur í sér þátttöku í fundum, æfingum og ráðstefnum erlendis.  Má þar nefna fundi með Northwest Atlantic Fisheries Organization (NAFO) og North East Atlantic Fisheries Commission (NEAFC), vegna sameiginlegrar fiskveiðistjórnunar.

Árlega eru fjölmargar ferðir farnar  vegna þjálfunar flugmanna í flughermum erlendis. Flugmenn á flugvélina TF SIF og þyrlur þurfa að fara í flughermi tvisvar sinnum á ári.  Í upphafi árs tók Landhelgisgæslan við megin rekstri Varnarmálastofnunar þegar hún var lögð niður 1. janúar og margvíslegir fundir innan Nató vegna rekstur loftvarnakerfisins eru nauðsynlegir.  Þá hefur eftirlit með smíði varðskips og ferðir áhafnar til Chile til að sigla skipinu heim kallað á margar ferðir á árinu.

Nánari upplýsingar koma fram í skriflegu svari innanríkisráðuneytisins vegna ráðuneytisins og allra stofnana þess innan tíðar ( sjá þskj. 162 – 160. mál).