Önnur verkefni varnarmálasviðs

Landhelgisgæsla Íslands hefur frá 1. janúar 2011 annast daglega framkvæmd öryggis- og varnartengdra verkefna hér á landi samanber samning milli utanríkisráðherra og dómsmálaráðherra um að Ríkislögreglustjórinn og Landhelgisgæsla Íslands annist tiltekin verkefni samkvæmt varnarmálalögum nr. 34/2008.

Helstu verkefni varnamálasviðsins eru: 

  1. Rekstur íslenska loftvarnakerfisins, þ.m.t. fjarskiptastöðva og ratsjárstöðva Atlantshafsbandalagsins hérlendis.
  2. Þátttaka í samræmdu loftrýmiseftirliti og loftrýmisgæslu Atlantshafsbandalagsins samkvæmt varnarmálalögum og á grundvelli þjóðréttarsamninga sem Ísland er aðili að.
  3. Rekstur, umsjón og hagnýting öryggissvæða og mannvirkja þar í eigu íslenska ríkisins og Atlantshafsbandalagsins í samræmi við notendaríkis- og gistiríkishlutverk Íslands.
  4. Undirbúningur og umsjón varnaræfinga sem haldnar eru hérlendis. 
  5. Úrvinnsla upplýsinga úr upplýsingakerfum Atlantshafsbandalagsins og undirstofnana þess. 
  6. Þátttaka í starfi nefnda og undirstofnana Atlantshafsbandalagsins er varðar þau verkefni sem Landhelgisgæslu Íslands eru falin samkvæmt samningi þessum.
  7. Verkefni sem varða framkvæmd varnarsamningsins. 
  8. Samstarf við önnur stjórnvöld, stofnanir eða opinber hlutafélög sem hafa með höndum verkefni sem tengjast varnarmálum. 
  9. Samstarf við alþjóðastofnanir og framkvæmd alþjóðasamþykkta á sviði varnarmála er varðar þau verkefni sem Landhelgisgæslu Íslands eru falin. 

Gistiríkjastuðningur

Landhelgisgæslan annast daglega framkvæmd gistiríkjastuðnings fyrir liðsafla Atlantshafsbandalagsins og Atlantshafsbandalagsþjóðanna hér á landi. Í verkefninu felst m.a. að taka á móti erlendum liðsafla sem til Íslands kemur, til æfinga, loftrýmisgæslu og annarra tengdra verkefna, tryggja hópunum gistiaðstöðu, aðgang að fæði, hreinlæti, afþreyingu og ferðum innan öryggissvæðisins.   

Öryggissvæðin

Öryggissvæðin eru lokuð, afgirt og þau vöktuð. Öryggissvæðin eru á þessum stöðum: 

  1. Ratsjár- og fjarskiptastöðvarnar á Miðnesheiði, Stokksnesi, Gunnólfsvíkurfjalli og Bolafjalli.
  2. Olíubirgðastöðin í Helguvík
  3. Öryggissvæðið við Keflavíkurflugvöll.

Sjá nánar auglýsingu nr. 720/2015 um landfræðileg mörk öryggis- og varnarsvæða.