Löggæsla og eftirlit

Í lögum um Landhelgisgæslu Íslands nr. 52/2006 er kveðið á um hlutverk Gæslunnar við almenna löggæslu og eftirlit auk annarra verkefna.

Landhelgisgæsla Íslands hefur frá 1. janúar 2011 annast daglega framkvæmd öryggis- og varnartengdra verkefna hér á landi. Verkefnið felst annars vegar í daglegum rekstri varnar- öryggis- og upplýsingakerfa NATO, rekstri öryggissvæða- og  mannvirkja og samskiptum við stofnanir Atlantshafsbandalagsins, aðildarþjóðirnar og Norðurlandaþjóðirnar og hinsvegar samskipti við þá aðila hér á landi sem að verkefninu koma. 

Í lögum um Landhelgisgæslu Íslands segir m.a.:ÞOR_MG_1326

Landhelgisgæsla Íslands sinnir öryggisgæslu og björgun á hafi úti, fer með löggæslu á hafinu og gegnir öðrum verkefnum samkvæmt ákvæðum laga þessara, ákvæðum reglugerða á grundvelli þeirra og öðrum lögbundnum fyrirmælum. Starfssvæði Landhelgisgæslu Íslands er hafið umhverfis Ísland, þ.e. innsævið, landhelgin, efnahagslögsagan og landgrunnið, auk úthafsins samkvæmt reglum þjóðaréttar. Landhelgisgæsla Íslands sinnir einnig verkefnum á landi í samstarfi við lögreglu og önnur yfirvöld.

Í lögunum eru margbreytileg verkefni Landhelgisgæslu Íslands talin upp. Á hafinu hefur Landhelgisgæslan að mörgu leyti líku hlutverki að gegna og lögreglan í landi en verkefnin eru m.a.:

* Öryggisgæsla á hafinu í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands, samninga við önnur ríki og ákvæði laga.
* Löggæsla á hafinu, þ.m.t. fiskveiðieftirlit og aðstoð við löggæslu á landi í samvinnu við ríkislögreglustjóra og lögreglustjóra.
* Aðkallandi sjúkraflutningar í samvinnu við aðra björgunaraðila.
* Aðstoð við almannavarnir.
* Aðstoð, þegar eðlilegar samgöngur bregðast, svo sem vegna hafíss, snjóalaga, ofviðra eða náttúruhamfara.
* Eftirlit á hafinu samkvæmt lögum um siglingavernd og öðrum sambærilegum lögum.
* Að tilkynna um, fjarlægja eða gera skaðlaus reköld, tundurdufl, sprengjur eða aðra hluti sem sjófarendum getur stafað hætta af auk sprengjueyðingar á landi.
* Móttaka tilkynninga frá skipum samkvæmt lögum um útlendinga og eftirlit með lögsögumörkum á hafinu.Jafnframt fer fram ýmiskonar eftirlit með skipum og búnaði sem stuðlar að öryggi sjófarenda.

Í daglegri framkvæmd öryggis- og varnartengdum felst:

  • Rekstur íslenska loftvarnakerfisins
  • Loftrýmiseftirlit, þ.a.m. loftrýmisgæsla, gistiríkjastuðningur, dagleg framkvæmd varnarsamningsins.
  • Umsjón með öryggissvæðum
  • Rekstur upplýsingaöryggiskerfa
  • rekstur 3/8 hluta af ljósleiðarakerfisins

Í lögum um Landhelgisgæslu Íslands segir jafnframt:

Eftirtaldir starfsmenn Landhelgisgæslu Íslands fara með lögregluvald þegar þeir annast eða aðstoða við löggæslu samkvæmt lögum þessum í efnahagslögsögu Íslands:

  1. Forstjóri og löglærðir fulltrúar hans.
  2. Áhafnir skipa og loftfara Landhelgisgæslu Íslands.
  3. Sprengjusérfræðingar.
  4. Yfirmenn í stjórnstöð og vaktstöð siglinga.

Við löggæslustörf skulu starfsmenn fara eftir lögreglulögum og lögum um meðferð opinberra mála eftir því sem við á.

Áhöfnum farartækja á sjó eða hafstöðva er skylt að hlýða fyrirmælum Landhelgisgæslu Íslands.

Starfsmenn Landhelgisgæslu Íslands, sem hafa lögregluvald og starfa við löggæslu, þ.m.t. siglingavernd og sprengjueyðingu, hafa heimild til að beita skotvopnum við störf sín samkvæmt reglum sem ráðherra setur.

Handhafar lögregluvalds í skipum og loftförum Landhelgisgæslu Íslands hafa heimild til að fara um borð í farartæki á sjó eða hafstöð til rannsóknar ef grunur leikur á um lögbrot og til að sinna lögbundnu eftirliti. Þeim er heimilt að vísa farartækjum til hafnar ef nauðsynlegt er til að ljúka rannsókn máls eða til að binda enda á brotastarfsemi. Þeim er jafnframt heimilt að yfirtaka stjórn skips.

Handhafar lögregluvalds í skipum og loftförum Landhelgisgæslu Íslands hafa heimild til að banna stjórnanda farartækis að halda til hafnar ef grunur leikur á um brot gegn lögum um siglingavernd og framkvæma öryggisleit í vistarverum og á farþegum skips.

Skipstjórum og öðrum sem aðstoð geta veitt er skylt að aðstoða Landhelgisgæslu Íslands við löggæslustörf og björgun mannslífa þegar þess er óskað ef það er unnt án þess að þeir stofni lífi, heilbrigði, velferð eða verulegum hagsmunum sínum í hættu.

Enginn má á nokkurn hátt tálma því að starfsmenn Landhelgisgæslu Íslands sinni störfum sínum.

Landhelgisgæsla Íslands skal virða ákvæði alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að þegar erlend skip eða hafstöðvar eiga í hlut.

Texti: DS.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica