Fréttayfirlit: ágúst 2004 (Síða 2)

Landhelgisgæslan tekur þátt í samstarfsverkefni Evrópusambandsins sem miðar að því að finna skip, greina endurvörp frá skipum og bera kennsl á þau

Föstudagur 6. ágúst 2004.   Landhelgisgæslan er þátttakandi í hinu svokallaða IMPAST verkefni (Improving Fisheries Monitoring by Integrating Passive and Active Satellite Technologies) sem rekið er af Evrópusambandinu. Verkefninu er stjórnað af rannsóknarstofnun Evrópusambandsins á Ítalíu. Verkefnið hófst árið 2002 og lýkur árið 2004. Að sögn Gylfa Geirssonar forstöðumanns fjarskipta- og upplýsingatæknideildar Landhelgisgæslunnar er eitt af markmiðum verkefnisins að greina nákvæmlega ratsjárendurvörp frá skipum og reyna að bera kennsl á þau aftur af endurvarpinu eingöngu. Þannig eru upplýsingar um endurvarpið geymdar í gagnagrunni og þegar mynd næst af skipinu aftur er gerður samanbuður á endurvörpunum við þær myndir sem þegar eru til. Notaðir eru láfleygir ratsjárgervihnettir og eru bornar saman upplýsingar frá þeim við upplýsingar úr fjareftirlitskerfum ásamt upplýsingum frá varðskipum og gæsluflugvélum um skipaferðir.  Hnettirnir fljúga í um 800 kílómetra hæð yfir jörðu og taka mynd af svæði sem er um 300 X 300 kílómetrar.  Kerfi sem þetta getur að öllum líkindum aukið mjög öryggi í siglingum og auðveldað björgun skipa.  Þetta kerfi gerir eftirlit varðskipa og gæsluloftfara markvissara en kemur þó engan veginn í staðinn fyrir slíkt hefðbundið eftirlit.    Á meðfylgjandi myndum sjást útlínur radarsvæðisins á Reykjaneshrygg og skip innan þess, en verkefnið hefur m.a. beinst að karfasvæðinu þar.Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.   Upplýsingar frá TF-SYN um skip við lögsögumörkin á Reykjaneshrygg milli kl. 6:56 og 9:17 28. júlí 2004.   Upplýsingar frá TF-SYN um skip við lögsögumörkin á Reykjaneshrygg milli kl. 6:56 og 9:17 28. júlí 2004 bornar saman við Impast-ratsjármynd frá kl. 8:20 sama dag.  Grænu punktarnir sýna skip þar sem upplýsingar frá SYN og IMPAST eru þær sömu, bláu punktarnir sýna skip sem eingöngu sjást frá TF-SYN og rauðu sem eingöngu sjást með IMPAST ratsjá.   Impast-ratsjármynd af skipum á lögsögumörkunum á Reykjaneshrygg 11. júlí 2004.   Impast-ratsjármynd af skipum á lögsögumörkunum á Reykjaneshrygg 17. júní 2004.   Impast-ratsjármynd af skipum á lögsögumörkunum á Reykjaneshrygg 20. júní 2003.     Á þessari mynd sjást ratsjárendurvörp tveggja skipa.  Við hlið myndar af ratsjárendurvarpi er skipið sem ratsjáin var að mynda.  Næst þegar skipið siglir um svæðið getur ratsjáin borið kennsl á það því að ratsjárendurvörp skipa eru mjög mismunandi.

Krökkt af sel í Bjarnarey

Föstudagur 6. ágúst 2004.Meðfylgjandi myndir tók Jón Páll Ásgeirsson yfirstýrimaður er hann var í vitatúr á varðskipinu Ægi sem er nýlokið.  Myndirnar eru teknar af selum í Bjarnarey sem er norður af Héraðsflóa.  Þar var krökkt af sel og voru þeir mjög spakir að sögn Jóns Páls. Sjá umfjöllun um vitatúr varðskipsins Ægis á heimasíðu Landhelgisgæslunnar á slóðinni: http://lhg.is/displayer.asp?cat_id=1&module_id=220&element_id=1399 Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr.

Vitatúr varðskipsins Ægis

Fimmtudagur 5. ágúst 2004.   Á hverju ári siglir varðskip meðfram ströndum landsins vegna eftirlits með ljósvitum og skerjavitum sem ekki er hægt að komast í frá landi.  Varðskipsmenn og menn frá Siglingastofnun sjá um eftirlit og viðhald á vitunum.  Nýlega lauk varðskipið Ægir einni slíkri ferð.Meðal verkefna var að fara yfir rafgeyma og sólarspegla og endurnýja perur.  Einnig var skipt um vindrafstöðvar og tveir vitar á Breiðafirði voru sólarrafvæddir auk vitans á Gjögurtá. Þar við bættist venjulegt viðhald vitahúsanna, þ.e. að gera við húsin og mála þau.   Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.       Seleyjarviti. Vitinn var málaður og rafmagn og veðurstöð sem í honum er yfirfarin.   Norðfjarðarhornsviti.  Hann stendur á kletti sem heitir Gullþúfa.  Stöngin var ryðhreinsuð og máluð og rafmagn yfirfarið, m.a. skipt um rafhlöður.   Kögurviti við Borgarfjörð eystri.     Ljósmyndarinn sjálfur, Jón Páll Ásgeirsson yfirstýrimaður á leið í Bjarnarey. Varðskipið Ægir í baksýn.   Bjarnareyjarviti. Settir voru upp nýir sólarspeglar í vitanum og vindhraðamælir.  Sjá gamla torfhúsið en ekki er langt síðan dúntekjufólk gisti þar.    Hér eru menn að koma á Zodiacbát varðskipsin Ægis úr vinnuferð í vitann í Grenjanesi skammt frá Raufarhöfn.  Um borð eru 7 menn frá Siglingastofnun og 8 menn úr áhöfn Ægis.   Flatey á Skjálfanda. Vitinn og húsin við hann.      Innsiglingamerki við bryggjuna í Flatey.  Sett vatn á rafgeyma og sólarspeglar, perur og fleira yfirfarið.        Ljósduflið við Hörgárgrunn í Eyjafirði var tekið upp í varðskipið og það yfirfarið og hreinsað.  Einnig var skipt um legufæri (stein og keðju). 

Varðskipið Týr dró togarann Stjörnuna út úr slipp í Hafnarfirði

Miðvikudagur 4. ágúst 2004. Landhelgisgæslunni barst ósk frá tryggingafélagi togarans Stjörnunnar í dag um að draga skipið út úr slippnum í Hafnarfirði.  Sjósetning skipsins hafði mistekist er dráttarsleði fór út af sporinu í slippnum.  Varðskipið kom til Hafnarfjarðar seinnipartinn og þá var hafinn undirbúningur fyrir verkið. Ákveðið var að hefjast handa kl. 21 um kvöldið á háflóði.  Aðgerðin heppnaðist mjög vel og fljótlega rann skipið hindrunarlaust í sjóinn. Engar skemmdir voru sjáanlegar á togaranum.Hafnsögubátar í Hafnarfirði drógu Stjörnuna síðan að bryggju þar sem dráttartaug varðskipsins var losuð.  Varðskipið gat þá haldið til hafs til annarra starfa.Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr.

Viktoría Áskelsdóttir syndir yfir Breiðafjörð - Fékk aðstoð léttbáts varðskipsins Ægis á hluta leiðarinnar

Þriðjudagur 3. ágúst 2004. Sjá meðfylgjandi myndir sem teknar voru frá varðskipinu Ægi og léttbát varðskipsins á Breiðafirði í gær er Viktoría Áskelsdóttir synti einn af nokkrum áföngum sunds síns yfir Breiðafjörð til styrktar Unicef. Sjá heimasíðu Viktoríu á slóðinni: http://www.unicef.is/sund/ Viktoría fékk aðstoð léttbáts varðskipsins Ægis í klukkustund í gær á hluta leiðarinnar. Stýrimaður varðskipsins, Hreggviður Símonarson, sigldi með Viktoríu á léttbátnum frá Stykkishólmi út í Fagurey. Þaðan synti hún í norðurátt í eina klukkustund og fylgdi léttbáturinn til öryggis. Á myndum má sjá Viktoríu á sundi og um borð í léttbátnum ásamt Hreggviði. Einnig eru myndir af varðskipsnemum úr 10. bekk grunnskóla sem sátu um borð í léttbátnum á meðan hann fylgdi Viktoríu á sundinu. Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr.  

Sjúkraflug vegna alvarlegs umferðarslyss við Kotströnd á Suðurlandsvegi

Mánudagur 2. ágúst 2004. Neyðarlínan hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 15:55 og lét vita um alvarlegt umferðarslys á Suðurlandsvegi skammt frá Hveragerði.  Óskað var eftir þyrlu.  Tveir bílar höfðu lent saman, fólksbíll á vesturleið og jeppi á austurleið. Áhöfn TFLIF var þegar kölluð út og fór þyrlan í loftið kl. 16:22.   Þegar þyrlan kom á staðinn var búið að ná einum slösuðum út úr fólksbílnum og var sjúkrabíll á leið með hann til Reykjavíkur en kona sem einnig hafði verði í fólksbílnum var flutt með þyrlunni á Landspítala Háskólasjúkrahús.  Læknir í áhöfn TF-LIF annaðist hana á leiðinni en þyrlan lenti  við spítalann kl. 16:52. Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr.  
Síða 2 af 2