Neyðarsendir fundinn

Fimmtudagur 5, febrúar 2009

Neyðarsendir sá sem Landhelgisgæslan hefur leitað að síðan í morgun fannst fyrir stundu. Fannst neyðarsendirinn í Breiðholti og var greinilegt að honum hafði verið komið fyrir og hann gangsettur.

Þegar Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst í morgun tilkynning um að flugvélar í yfirflugi nemi merki frá neyðarsendi var strax farið í að finna út staðsetningu hans. Varðskip og stjórnstöð Landhelgisgæslunnar ásamt björgunarskipi Slysavarnarfélagsins Landsbjargar gátu fljótlega grófreiknað út leitarsvæðið. Komust þeir að því að neyðarsendirinn væri í Reykjavík og fundu út í hvaða hverfi borgarinnar sendirinn væri staðsettur. Fór þá þyrla Landhelgisgæslunnar TF-EIR á vettvang sem gat með búnaði sínum minnkað leitarsvæðið talsvert,  en ekki nóg,  þar sem neyðarsendirinn var staðsettur í íbúabyggð.

Tóku þá við starfsmenn flugdeildar Landhelgisgæslunnar við leitinni  sem ásamt sérfræðingi Slysavarnarfélagsins Landsbjargar fóru um leitarsvæðið með handmiðunartæki. Fannst neyðarsendirinn að lokinni þriggja tíma leit.

Landhelgisgæslan lítur málið mjög alvarlegum augum því tímafrekt er og kostnaðarsamt að setja af stað leit sem þessa auk þess sem verið er að misnota tæki sem annars geta bjargað mannslífum.

20.02.2009/HBS