Þyrla Landhelgisgæslunnar tók þátt í leit

  • GNA3_BaldurSveins

Þriðjudagur 6. apríl 2010

Landhelgisgæslunni barst kl. 10:10 á þriðjudag beiðni frá lögreglunni á Hvolsvelli um aðstoð þyrlu við leit að tveimur konum og einum manni sem voru á ferðalagi á Honda jeppling í grennd við gossvæðið á Fimmvörðuhálsi. Var í upphafi um að ræða leitarsvæðið inn með Fljótshlíðarvegi, meðfram Markarfljóti, inn að svonefndu Tröllagjá og svæðið þar í kring. Síðast heyrðist til fólksins um kl. 02:00 um nóttina. Þyrlan kölluð út kl. 10:13, fóru stýrimenn á flugvelli yfir staðsetningar vegarslóða á svæðinu áður en TF-GNÁ fór í loftið kl. 10:51.

Eftir að hafa leitað á svæðinu án árangurs var ákveðið að þyrlan tæki eldsneyti við Hótel Rangá. Var þar haldinn stöðufundur með lögreglunni á Hvolsvelli.Þyrlan fór að nýju í loftið kl. 14:32.

TF-GNÁ fann kl. 16:05 konu á gangi um 3 km norðan við Einhyrning sem var orðin köld og máttfarin. Hún taldi að best væri að halda í Norður þar sem bílinn væri væntanlega staðsettur sem og samferðafólk hennar. Var henni vafið í teppi og gefið heitt að drekka, leitinni var haldið áfram.

Gat þyrlan rekið fótspor konunnar sem leiddi hana  norður Emstrurnar  að bifreiðinni.  Kl. 16:46 var lögreglu tilkynnt um að þyrlan hafi fundið hina konuna látna um 600 metra frá bifreiðinni. Þyrluáhöfn fékk heimild frá lögreglunni á Hvolsvelli til að taka konuna um borð, var hún flutt að hótel Rangá þar sem lögregla og útfararþjónusta tóku á móti henni. Mjög slæm leitarskilyrði voru orðin úr þyrlu kl. 17:41. Var þá ákveðið að TF-GNÁ færi til Reykjavíkur. Lent var með konuna við Landspítalann í Fossvogi kl. 18:18.