Mikilvægi sjómælinga

  • 2010-05-03,_Baldur_a

Í aldanna rás hafa upplýsingar í sjókortum verið notaðar af sjófarendum til öruggra siglinga og verið grundvöllur fyrir könnun fjarlægra heimshluta og síðan forsenda aukinna verslunar og samgangna. Þetta grundvallaratriði er í raun óbreytt, sjómælingar eru grunnur að öllum samgöngum á sjó.

Ábyrgð á sjómælingum og sjókortum á Íslandi bera Sjómælingar Íslands sem rekin er sem sérstakt svið innan Landhelgisgæslu Íslands skv. 11. lið 4. gr. laga nr. 52/2006. Upphaf Sjómælinga Íslands má rekja til ársins 1929 er Friðrik Ólafsson hóf störf við sjómælingar. Stór hluti mælinga við Ísland er frá fyrri hluta 20. aldar eins og sjá má á meðfylgjandi korti. Því er mikið verk óunnið við sjómælingar og uppfærslu á sjókortum. Þá er á mörgum svæðum, einkum við hafnir og innsiglingaleiðir straumar sem breyta hafsbotninum og því þarf að mæla þar reglulega.

Malt_med_handlodi

Kort þetta sýnir mælingar sem gerðar voru af Dönum árunum 1890 - 1906

Mikilvægi sjómælinga sjást meðal annars á því að alls eru 80 ríki aðilar að Alþjóða sjómælingastofnunin (International Hydrographic Office, IHO) af þeim 151 ríkjum sem hafa strandlengju. Þar með hafa 80 ríki viðurkennt og staðfest mikilvægi sjómælinga sem undirstöðutriði hvað snertir sjóflutninga og annað það er tengist nýtingu og verndun sjávar. Þar spilar IHO stóran þátt sem áræðanleg og hæf alþjóðleg samtök á sviði sjómælinga sem viðurkennd eru af Sameinuðu þjóðunum . IHO  setur lágmarkskröfur um nákvæmni mælinga s.s. staðsetningu, dýpis-, flóðs- og hljóðhraðamælingum. Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um „Öryggi mannslífa á hafinu“ (Safety of Life at Sea, SOLAS) skuldbindur strandríki til að framkvæma sjómælingar, gefa út sjókort og önnur sjóferðagögn (Nautical Publication) ásamt því að halda þeim uppfærðum (up to date). Jafnframt ber að tryggja sjófarendum aðgang að öllum hugsanlegum öryggisupplýsingum. 

Landhelgisgæsla Íslands-Sjómælingasvið er alþjóðlegur fulltrúi Íslands innan IHO hvað varðar sjómælingar og sjókortagerð og þarf að sinna ýmsum skildum er varðar þátttöku í IHO, North Sea Hydrographic Commission og Nordic Hydrographic Commission. Sjómælingar fá t.d. á annað hundrað bréf og erindi á ári frá IHO sem taka þarf afstöðu til og svara.  Örugg og uppfærð sjókort eru forsendur fyrir tryggingarvernd og útreikningi á iðgjöldum.

 Iceland_modern_hydrographic_surveys

Á ofangreindri mynd  má sjá blálitað það svæði sem mælt hefur verið við strendur landsins og eins og sjá má þá eru mjög stór strandsvæði sem eftir er að mæla auk þess sem lítið hefur verið mælt lengra frá ströndinni.  Einnig þarf að endurmæla hluta svæðisins vegna breyttra krafna. 

Á síðustu árum hefur orðið mikil aukning á beiðnum og fyrirspurnum frá ýmsum stofnunum og fyrirtækjum sem þurfa að nýta sér þær upplýsingar og þekkingar sem finna má hjá sjómælingastofnunum um heim allan.  Stofnanir, fyrirtæki og almenningur nýta sér þekkingu starfsfólks og upplýsingar frá Sjómælingum. Þeirra á meðal eru orkuveitur, Siglingastofnun, Umhverfisstofnun, Fiskistofa, Náttúrufræðistofnun, Hafrannsóknarstofnun og svo mætti lengi telja. Ráðuneyti utanríkis-, samgöngu-, og umhverfismála leita einnig aðstoðar Sjómælinga.

Á síðustu árum hefur gífurleg vinna farið í að tölvuvæða eldri mælingagögn sem eru í vörslu Sjómælinga. Þessa mánuðina er því verkefni að ljúka sem mun auðvelda alla framtíðar vinnu.

Sjómælingar hafa rekið og haft umsjón með flóðmælingum í Reykjavíkurhöfn frá 1955 og eru upplýsingar sendar erlendum vísindastofnunum. Í dag eru flóðupplýsingar mældar á hverri mínútu og sendar rafrænt til UNESCO.  Ástæðan er að þessar flóðmælingar geta gefið mikilvægar upplýsingar þegar um er að ræða jarðskjálfta og flóðbylgur (Tsunami). Verkfræðistofur og sveitarfélög óska eftir upplýsingum vegna nýbygginga mannvirkja, frárennslislagna í sjó, upplýsinga um hæstu og lægstu flóðhæð. Veðurfar og flóðhæð hafa samspil sem geta skipt máli varðandi tjón og tryggingar osfr.

Dyptarmaelingar
Óþekktur drangur við Vestmannaeyjar fannst við mælingar á Baldri 2006, drangur sem hæglega getur rifið gat á skrokk skemmtiferðaskips

 
Sjómælingar eru kallaðar til að dýptarmæla vegna rannsókna á hugsanlegum hafnarframkvæmdum svo sem olíustöð (Vestfjörðum) og bækistöðvar í landi við Finnafjörð vegna Drekasvæðisins. Nýjar vatns og raflagnir til Vestmannaeyja og Hríseyjar voru lagðar alfarið eftir upplýsingum og mælingum frá Sjómælingum. Sjávarbotnin við Surtsey hefur verið mældur reglulega að beiðni vísindamanna.

Aukning á komum skemmtiferðaskipa hefur verið mikil á síðustu árum og er unnið stöðugt að fjölgun þeirra. Ef nýleg sjókort með nýjum mælingum væru ekki til staðar væru líklega engar siglingar skemmtiskipa á suma þessi staði eins og Grundarfjörð (eldra kortið var frá 1946), Djúpavog (kortið var frá 1964) og Austfjarðahafnir þar sem kortið var frá 1944. Mælingar í þessum sjókortum voru frá árunum í kringum 1900 og síðan rétt eftir stríð. Alþjóðleg flokkunarfélög skipa gerðu athugasemdir við aldur sjókorta við Ísland áður en álverið í Reyðarfirði var byggt.

GrundarfjInnsiglKort1
Við mælingar 2002 fannst 6 m grunn við innsiglinguna inn til Grundarfjarðar
 
Aðalverkefni Sjómælinga er eftir sem áður að sinna sjófarendum sem sigla við Íslands strendur. Sjófarendur verða að hafa uppfærð sjókort og sjóferðabækur. Erlend flutningaskip verða að hafa sjóferðagögn í lagi samkvæmt alþjóðareglum, að öðrum kosti er hægt að kyrrsetja þau samkvæmt Hafnarríkiseftirliti (Port State Control).

Sjómælingar gefa út 68 sjó- og hafnakort, prentuð og rafræn, ásamt 6 upplýsingaritum. Á næstu mánuðum bætast 8 kort við og auk þessa verður að búa til sjókort af Landeyjahöfn á Bakkafjöru til að ferjur/farþegaskip geti notað höfnina samkvæmt SOLAS og sem einnig varðar tryggingar skipanna.

Dæmi um nokkur verkefni, bæði hefðbundin sem óhefðbundin:

 Útlendingur hringir og spyr um flóðtíma í Jökulsárlóninu vegna myndatöku.
 Fyrirtæki óskar eftir mælingakorti vegna sjávarfallavirkjunar í og við Hvammsfjarðarröst.
 Fyrirtæki óska eftir upplýsingum vegna tilraunaveiða á makríl í gildrur í Finnafirði.
 Miklar breytingar hafa orðið á höfninni á Þórshöfn og Siglufirði  sem nauðsynlegt er að koma í hafnarkort.
 Siglingar Herjólfs eiga að hefjast 1. júlí í ár. Mælingarnar í sjókorti nr. 321 fyrir framan höfnina eru frá 1951!

Að lokum; „Sjókort er aldrei fullbúið“ enda eru hafstraumar sífellt að verki og móta strönd og hafsbotn. Eftir prentun sjókorts bera skipstjórnarmenn, hver á sínu skipi, ábyrgð á að uppfæra sjókortið samkvæmt nýjustu upplýsingum sem birtast í Tilkynningum til sjófarenda, jafnt erlendum sem íslenskum.

Sjómælingasvið Landhelgisgæslunnar.