TF-LÍF flytur slasaðan mann frá Hafradal í Nesjum

Sunnudagur 24. október 2010

Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út á laugardag kl. 16:44 eftir að fjarskiptamiðstöð lögreglunnar óskaði eftir aðstoð hennar við að sækja fótbrotinn mann sem féll af fjórhjóli í Hafradal við Laxárdal í Nesjum. Þar sem erfitt var að nálgast manninn með öðrum farartækjum óskaði lögregla eftir aðstoð þyrlu Landhelgisgæslunnar.

TF-LIF fór í loftið frá Reykjavík kl. 17:20. Komið var myrkur þegar lent var við slysstaðinn í Hafradal kl. 19:03. Voru þá björgunarsveitarmenn frá björgunarfélagi Hornafjarðar og Bárunnar á Djúpavogi komnir á vettvang og höfðu spelkað manninn. Var maðurinn fluttur um borð í þyrluna og farið í loftið að nýju kl. 19:16. Lent var um stund á flugvellinum á Höfn í Hornafirði þar sem betur var búið um meiðsli mannsins en hann var auk þess blautur og kaldur eftir að hafa fallið í á. Var farið í loftið frá flugvellinum á Höfn kl. 19:33 og lent við Landspítalann í Fossvogi kl. 21:13.