Möguleikar á auknu samstarfi við Bresku sjómælingastofnunina kannaðir

Miðvikudagur 22. febrúar 2006.

 

Forstjóri Bresku sjómælingastofnunarinnar (UKHO), Dr. Wyn Williams, heimsótti Landhelgisgæsluna nýverið og átti fundi með Georgi Kr. Lárussyni forstjóra Landhelgisgæslunnar, Hilmari Helgasyni framkvæmdastjóra sjómælingasviðs/Sjómælinga Íslands og Sólmundi Má Jónssyni framkvæmdastjóra rekstrarsviðs þar sem meðal annars voru ræddir möguleikar á auknu samstarfi stofnananna. Að sögn Hilmars Helgasonar komu upp athygli verðar hugmyndir sem nú er verið að koma í framkvæmd.

 

Fundurinn var ákveðinn í framhaldi af því að forstjórarnir hittust sl. sumar og endurnýjuðu samstarfssamning stofnana sinna.  

 

Dr. Williams og aðstoðarmaður hans kynntu sér starfsemi Landhelgisgæslunnar, einkum sjómælingasviðs, og lauk heimsókninni með því að gestirnir fengu ásamt fylgdarliði far með Syn, eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar, til Vestmannaeyja sem var við gæslustörf út af suðausturlandinu. Í Vestmannaeyjum voru afleiðingar eldgossins skoðaðar og í bakaleiðinni var Surtsey skoðuð úr lofti.

Dagmar Sigurðardóttir

lögfræðingur/upplýsingaftr.

 


Dr. Wyn Williams, forstjóri Bresku sjómælingastofnunarinnar og Georg Kr. Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar.


Árni Vésteinsson deildarstjóri kortadeildar Landhelgisgæslunnar / Sjómælinga, sýnir Dr. Wyn Williams og aðstoðarmanni hans, Chris Smith, sjókort af hafsvæðinu kringum Ísland og rit sem Sjómælingar gefa út.