Vélsleðamaður fluttur með þyrlu á sjúkrahús

Fimmtudagur 29. desember 2005.

 

Vélsleðamaður sem hafði fallið niður um ís og orðið fyrir ofkælingu var í dag fluttur með Líf, björgunarþyrlu Landhelgisgæslunnar, á sjúkrahús í Reykjavík.

Þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar var kölluð út kl. 16:17 í vegna vélsleðamanns sem hafði fallið niður um ís og orðið fyrir ofkælingu en hann var í vélsleðaferð ásamt félögum sínum á Lyngdalsheiði við Kálfstinda.  Talið er að hann hafi verið um 5-10 mínútur í ísvatni áður en félagar hans náðu að bjarga honum upp úr vökinni.

 

Félagar vélsleðamannsins náðu að koma honum upp í jeppa og keyra þar til þeir komust í símasamband og hringja á Neyðarlínuna sem óskaði eftir aðstoð Landhelgisgæslunnar.  Var búið að koma manninum fyrir í sjúkrabíl við Gjábakkaveg er Líf kom á staðinn kl. 16:41.

 
Maðurinn var illa haldinn og meðvitundarlítill er þyrlan kom á staðinn en hresstist fljótt eftir að hann komst á sjúkrahús.  Þyrlan lenti með hann við Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi kl. 17:13.

Dagmar Sigurðardóttir
lögfræðingur/upplýsingaftr.