Starfsmenn Vaktstöðvar siglinga kynna sér starf björgunarsveitarinnar Ársæls

Síðastliðinn laugardag fóru starfsmenn Vakstöðvar siglinga / stjórnstöðvar Landhelgisgæslu Íslands í kynnisferð hjá björgunarsveitinni Ársæli sem meðal annars sér um rekstur á björgunarbátnum Ásgrími S. Björnssyni fyrir hönd Slysavarnafélgsins Landsbjargar.  Björgunarsveitin á sjálf einnig harðbotna slöngubát og tvo sérútbúna slöngubáta.

 

Farið var í siglingu um Kollafjörð og Skerjafjörð og fengu starfsmennirnir að kynnast aðstöðunni um borð, heyra sjónarmið áhafnanna og gafst tækifæri til að sigla með slöngubátunum.  Með í för var samskiptafulltrúi Varnarliðsins við Landhelgisgæsluna ásamt tveimur Svíum frá systursamtökum Slysavarnafélagsins Landsbjargar í Svíþjóð. 

 

Þegar að rökkva tók var gerð prófun á svifblysi sem ætlað er að lýsa upp hafflötinn í leitaraðgerðum en slík blys voru nýlega keypt í Ásgrím S. Björnsson að fenginni reynslu við leitaraðgerðir í slæmu skyggni. 

 

Í lokin var öllum boðið í pizzu í Skógarhlíð í boði Vaktstöðvar siglinga en við það tækifæri var áhöfnum björgunarbátanna kynnt starfsemi stöðvarinnar. Áætluð er önnur ferð næstkomandi laugardag með þá starfsmenn Vakstöðvar siglinga / stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar sem ekki komust síðastliðinn laugardag vegna skyldustarfa.

Hjalti Sæmundsson aðalvarðstjóri, Hafsteinn Þorsteinsson varðstjóri, Ásgrímur L. Ásgrímsson yfirmaður VSS, Ebenezar Bárðarson varðstjóri, Einar Sigurgeirsson varðstjóri, Bergþór Atlason varðstjóri.

Árni Sigurbjörnsson varðstjóri, Hjalti Sæmundsson aðalvarðstjóri, Hafsteinn Þorsteinsson varðstjóri, Ásgrímur L. Ásgrímsson yfirmaður VSS, Ebenezar Bárðarson varðstjóri.