Þrettándu æfingu sprengjusérfræðinga hér á landi lokið

Föstudagur 30. september 2013

Æfingunni Northern Challenge lauk í gær eftir tveggja vikna þjálfun bæði á sjó og landi. Æfingin fór fram á Keflavíkurflugvelli og á fyrrum varnarsvæðum utan hans, í höfninni í Helguvík, Patterson svæðinu og í Hvalfirði. Samtals tóku um hundrað og fimmtíu sprengjusérfræðingar frá tíu þjóðum þátt í æfingunni, þær eru auk Íslands: Danmörk, Noregur, Svíþjóð, Þýskaland, Holland, Belgía, Frakkland, Austurríki og Bandaríkin. Æfingin var haldin hér á landi í þrettánda sinn en auk Landhelgisgæslunnar koma aðildarþjóðir NATO að skipulagningu og framkvæmd æfingarinnar.

Mikil ánægja er með framkvæmd æfingarinnar sem er nauðsynlegur vettvangur fyrir sprengjusérfræðingana sem margir hafa unnið saman eða eru á leið til starfa sem friðargæsluliðar á átakasvæðum. Þar felst starf þeirra í að hreinsa sprengjur af svæðunum til að uppbygging geti hafist að nýju. Nánar um tilgang og framkvæmd æfingarinnar smellið hér.

Hér eru myndir sem voru teknar í æfingunni í Hvalfirði þar sem eftirlits- og sjómælingaskipið Baldur harðbotna báturinn Leiftur tóku þátt.