Sjómannadagurinn haldinn hátíðlegur um land allt

Mánudagur 2. júní 2014

Landhelgisgæslan tók þátt í hátíðarhöldum Sjómannadagsins með ýmsum hætti. Þyrlur voru sýnilegar víða um land og starfsmenn hennar stóðu heiðursvörð við minningaröldur Sjómannadagsráðs við Fossvogskapellu í Fossvogskirkjugarði þegar lagðir voru blómsveigar að minnisvarðanum. Að lokinni athöfn var haldið í safnaðarheimili Dómkirkjunnar þar sem safnast var saman til Sjómannamessu í Dómkirkjunni og var síðan gengið í fylkingu til messunnar. Einnig voru starfsmenn LHG viðstaddir messu á Hrafnistu.

Þyrla Landhelgisgæslunnar var með sýningaratriði í höfnum Hafnarfjarðar, Reykjavíkur og Akraness. Tveir menn voru hífðir úr sjó fyrir utan Hafnarfjarðarhöfn og var þeim síðan skilað um borð í Einar Sigurjónsson, björgunarskip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar. Var síðan haldið til Reykjavíkur þar sem kajakræðari var hífður af kajak og honum skilað á bryggjuna. Þaðan var síðan haldið á Akranes þar sem tveir menn voru hífðir úr sjó.

Á laugardag tók þyrlan þátt í hátíðarhöldum á Sauðárkróki, Ólafsfirði, Akureyri og á Grundarfirði. Auk þess var þyrla LHG viðstödd hátíðarhöld í Vöðlavík vegna afhjúpunar minnisvarða sem er reistur í tilefni þess að 20 ár eru liðin frá björgun áhafnar fiskiskipsins Bergvíkur sem strandaði í fjörunni í Vöðlavík og í framhaldi af því áhafnar dráttarskipsins Goðans sem sökk í brimgarðinum er skipið tók þátt í því að reyna að draga Bergvíkina út.  Varðskip Landhelgisgæslunnar komu mikið við sögu í þessum aðgerðum og tókst um síðir að losa Bergvíkina af strandstað. 

Við athöfnina sýndi þyrla Landhelgisgæslunnar, skip og bátar Slysavarnafélagsins Landsbjargar björgunarstörf á víkinni. Sjá frétt Austurfréttar af athöfninni.


Þyrlubjörgun í Vöðlavík. Mynd Gísli H. Guðjónsson.


Björgunaræfing í Reykjavíkurhöfn. Mynd Hákon Halldórsson.


Sýnd björgun kajakræðara í Reykjavíkurhöfn. Mynd Hákon Halldórsson.


Kajakræðarar undir þyrlunni. Mynd Hákon Halldórsson.



Minningarathöfn í Fossvogskirkjugarði. Mynd Jón Páll Ásgeirsson.



Sigurður Steinar Ketilsson, skipherra, Ásgrímur L. Ásgrímsson, framkvæmdastjóri aðgerðasviðs, Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, Þórunn Hafstein, skrifstofustjóri, Þórunn Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri ásamt Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, innanríkisráðherra. Mynd Jón Páll Ásgeirsson.


Sigurður Steinar Ketilsson, skipherra og Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar spjalla. 
Mynd Jón Páll Ásgeirsson.


Jóhann Örn Sigurjónsson, háseti, Kolbeinn Guðmundsson, varðstjóri 
og Jón Kr. Friðgeirsson, bryti. 



Óskar Ármann Skúlason, háseti og Jón Páll Ásgeirsson, stýrimaður lásu upp úr ritningunni á Hrafnistu.
Mynd Jón Páll Ásgeirsson.



Fjölmennt var í messu á Hrafnistu. Mynd Jón Páll Ásgeirsson.