Þyrla LHG tekur áfram þátt í leit í Fljótshlíð - þurfti að hverfa frá vegna útkalls

Fimmtudagur 12. júní 2014

Þyrla Landhelgisgæslunnar mun í dag taka þátt í áframhaldandi leit í Fljótshlíð að konu sem saknað hefur verið frá því á laugardag. Í gærmorgun fór þyrlan frá Reykjavík um klukkan 09:00 og var lent á Hvolsvelli þar sem samráð var haft við lögregluna um tilhögun leitarinnar. Ákveðið var að þyrlan myndi leita svæðið frá Bleiksmýrargili og niður að Markarfljótsbrú. Flognar voru nokkrar ferðir og var einnig lent við gilið og það skoðað ofan frá.

Nauðsynlegt varð að hætta leit með þyrlu kl. 13:25 eftir að alvarlegt slys varð þegar maður féll af hestbaki í Þjórsárdal. Flogið var beint á slysstað og lent tæpum 20 mínútum eftir útkallið eða  kl. 13:43. Stóð þá yfir endurlífgun sem þyrlulæknir tók við og bar hún fljótt árangur. Var maðurinn fluttur um borð í þyrluna og var farið í loftið að nýju í loftið kl. 14:05 . Lenti þyrlan við Borgarspítala kl. 14:30.