Landhelgisgæslan og sjómannadagurinn

Miðvikudagur 8. júní 2005.

Landhelgisgæslan tók þátt í sjómannadeginum með margvíslegum hætti.  Varðskipið Týr var til sýnis fyrir almenning í Reykjavíkurhöfn og kom fjöldi manns að skoða skipið.  Áhöfn TF-SIF sýndi björgunaræfingar í Reykjavík og Hafnarfirði en þær fólust í því að tveir menn voru hífðir úr björgunarskipi Slysavarnarfélagsins Landsbjargar og tveir úr sjó.

Að morgni sjómannadagsins tók áhöfn varðskipsins Týs, forstjóri Landhelgisgæslunnar og varðskipsnemar þátt í minningarathöfn í Fossvogskirkjugarði.  Áhöfnin ásamt forstjóra stóð þar heiðursvörð þegar lagður var blómsveigur að leiði óþekkta sjómannsins. Þeir sömu tóku einnig virkan þátt í sjómannadagsmessu í dómkirkjunni. 

Sjá á heimasíðu þjóðkirkjunnar frásögn af þeirri hefð að halda sjómannadaginn hátíðlegan og þáttöku kirkjunnar í þeim sið:

http://www.kirkjan.is/?frettir/2005?id=173

Dagmar Sigurðardóttir
upplýsingaftr.


Að athöfn lokinni í Fossvogskirkjugarði. Frá vinstri Ágúst Skorri Sigurðsson háseti og Guðmundur Rúnar Jónsson stýrimaður sem báru blómsveiginn og Thorben Lund yfirstýrimaður sem stjórnaði heiðursverði.


Skrúðganga til kirkju á sjómannadag.  Fyrir göngunni með íslenska fánann fóru Thorben Lund yfirstýrimaður og Geirlaug Jóhannesdóttir háseti. Rögnvaldur K. Úlvarsson háseti bar stjörnufána sjómannadagsins.  Hver stjarna í fánanum táknar þá er misstu líf sitt á sjónum frá síðasta sjómannadegi en tveir sjómenn hafa látist síðan þá.  Á eftir fánaberum kom forseti Íslands, sjávarútvegsráðherra, sjómannadagsráð, áhöfn varðskipsins Týs og aftast séra Hjálmar Jónsson dómkirkjuprestur og biskup Íslands séra Karl Sigurbjörnsson.


Guðmundur Rúnar Jónsson stýrimaður og Hreinn Vídalín háseti fara með ritningalestra í sjómannadagsmessu í Dómkirkjunni en áhöfn varðskipsins Týs, forstjóri Landhelgisgæslunnar og varðskipsnemar tóku virkan þátt í messuhaldinu.


Áætlað er að a.m.k. 1000 manns hafi komið að skoða varðskipið Tý á meðan það var til sýnis við Reykjavíkurhöfn á sjómannadaginn.


Áhöfn TF-SIF sýnir björgunaræfingu ásamt áhöfn björgunarskips Slysavarnarfélagsins Landsbjargar.