Mannbjörg varð er fiskibáturinn Hildur sökk á Þistilfirði um hádegið

Föstudagur 20. maí 2005.

Mannbjörg varð er fiskibáturinn Hildur ÞH-38 sökk á Þistilfirði um 7 sjómílur austsuðaustur af Raufarhöfn.  Tveir skipverjar höfðu komist í gúmmíbjörgunarbát og var síðan bjargað um borð í björgunarskip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, Gunnbjörgu frá Raufarhöfn.

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar/Vaktstöð siglinga bárust upplýsingar frá Flugstjórn um að flugvél hefði tilkynnt um neyðarsendingar kl. 12:43.  Þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar og björgunarbátar Slysavarnarfélagsins Landsbjargar voru þegar kölluð út.  Einnig bárust neyðarsendingar um gervitungl.   Þá hafði fiskibáturinn Hildur ÞH-38 frá Raufarhöfn horfið út úr sjálfvirka tilkynningarskyldukerfinu.

TF-LIF fór í loftið kl. 13:21 en var snúið við kl. 13:50 er staðfestar upplýsingar bárust um að tveimur skipverjum af Hildi ÞH-38 hefði verið bjargað um borð í björgunarskipið Gunnbjörgu frá Raufarhöfn.  Þyrlan lenti á Reykjavíkurflugvelli kl. 14:14 en björgunarskipið Gunnbjörg er væntanlega komið til Raufarhafnar með skipbrotsmennina.

Talsverður sjór var á Þistilfirði er báturinn sökk, norðaustan kaldi og vindhraði um 8-10 m. á sek. Hildur ÞH-38 er 20 tonna eikarbátur, smíðaður á Fáskrúðsfirði 1973.

Dagmar Sigurðardóttir
lögfr./upplýsingaftr.