Sameiginlegar æfingar Landhelgisgæslunnar og Flugbjörgunarsveitarinnar

Mánudagur 30. ágúst 2004.

 

Landhelgisgæslan heldur margvíslegar æfingar með björgunarsveitum.  Tilgangurinn er að undirbúa viðbrögð við slysum og geta á árangursríkan hátt bjargað fólki sem er í hættu statt.  Sem dæmi má nefna sameiginlegar æfingar með Flugbjörgunarsveitinni en nokkrum sinnum á ári fara fallhlífastökkvarar sveitarinnar með Fokker-flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SYN, og stökkva út úr henni í mismunandi mikilli hæð.  Flugvélin er þannig búin að hægt er að opna dyr hennar á flugi og varpa út úr henni björgunarbúnaði.  Þessi möguleiki gagnast einnig fallhlífastökkvurum. 

 

Átta fallhlífastökkvarar Flugbjörgunarsveitarinnar fóru með TF-SYN sl. föstudag og var tilgangurinn að fara í æfingastökk yfir Sandskeiði.  Fjórir stukku úr 800 feta hæð  og opnuðust fallhlífar þeirra strax við stökkið.  Við slíkar aðstæður geta stökkvararnir ekki stýrt sér niður.   Hinir fjórir stukku úr 3000 feta hæð í frjálsu falli þannig að þeir gátu stýrt sér niður og lent á þeim stað sem þeir kusu.  Sjá meðfylgjandi myndir sem Jón Páll Ásgeirsson stýrimaður tók við það tækifæri.

 

Í lögum um Landhelgisgæslu Íslands kemur m.a. fram að markmið Landhelgisgæslunnar sé að veita hjálp við björgun manna úr sjávarháska eða á landi, svo og að annast aðkallandi sjúkraflutninga ýmist á eigin spýtur eða í samvinnu við þá aðila sem að björgunarstörfum vinna.  Í lögum um björgunarsveitir og björgunarsveitarmenn segir að björgunarsveit sé félag sem á grundvelli sjálfboðaliðastarfs tekur þátt í björgun, leit og gæslu að beiðni stjórnvalda.  Það gefur því auga leið að mikið og gott samstarf þarf að vera milli Landhelgisgæslunnar og björgunarsveita í landinu og eru sameiginlegar æfingar liður í því.

 

Dagmar Sigurðardóttir

fjölmiðlaftr.

 

Mynd JPÁ:  Auðunn F. Kristinsson stýrimaður ásamt tveimur fallhlífastökkvurum Flugbjörgunarsveitarinnar rétt áður en þau stukku í frjálsu falli úr 3000 feta hæð.

 

Mynd JPÁ:  Flugbjörgunarsveitarmenn fyrir framan TF-SYN áður en haldið var í flug sl. föstudag.