TF-LIF sótti slasaðan mann um borð í frönsku skútuna Tara

Fimmtudagur 29. júlí 2004.

 

Sjóbjörgunarmiðstöðin í Gris Nes í Frakklandi hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar rúmlega eitt eftir miðnætti í nótt og tilkynnti að maður hefði slasast um borð í frönsku skútunni Tara. Skútan var þá stödd 117 sjómílur norð-norð-austur af Siglunesi. Maðurinn hafði misst tvo fingur og hafði áhöfn skútunnar ráðfært sig við franskan lækni sem taldi nauðsynlegt að koma manninum tafarlaust á sjúkrahús.

 

Að höfðu samráði við lækni í áhöfn TF-LIF var áhöfn hennar kölluð út og fór þyrlan í loftið kl. 2:10.  Flug að skútunni tók u.þ.b. tvær klukkustundir og gekk greiðlega að ná manninum um borð í þyrluna.  Áhöfn skútunnar setti hinn slasaða um borð í slöngubát til að auðvelda hífingu.

 

TF-LIF lenti flugvellinum á Akureyri kl. 5:40 og flutti lögreglan manninn á fjórðungssjúkrahúsið.  TF-LIF lenti við flugskýli Landhelgisgæslunnar kl. 7:30 í morgun.

 

Dagmar Sigurðardóttir

fjölmiðlaftr.

 

Mynd: Friðrik Höskuldsson stýrimaður í flugdeild/ Franska skútan Tara og slöngubáturinn sem hinn slasaði var hífður upp úr.