Ný sjókort

Komin eru út 3 ný sjókort og 2 uppfærð sjókort.

 

Nýju kortin hjá Sjómælingum Íslands, sem er deild innan Landhelgisgæslunnar, eru kort nr. 37 Hjörsey – Stykkishólmur (1:100 000), kort nr. 81 Stokksnes – Dyrhólaey (1:300 000) og kort nr. 426 Ólafsvík – Stykkishólmur (1:50 000). Uppfærðu kortin eru kort nr. 31 Dyrhólaey – Snæfellsnes (1:300 000) og kort nr. 44 Norðurflói (Breiðafjörður) (1:70 000).

 

Kort 37 nær yfir norðanverðan Faxaflóa, fyrir Snæfellsnes og inn sunnanverðan Breiðafjörð að Stykkishólmi. Kortið byggist á nýjum mælingum sem gerðar voru á sjómælingabátnum Baldri og að hluta til á varðskipinu Ægi.

 

Tvö önnur kort flokkast sem ný kort, þ.e. kort 81 og 426. Kort 81 leysir gamla kort 81 af hólmi. Mörk þess hafa breyst töluvert. Kort þetta byggist m.a. á gögnum sem fengust með  fjölgeislamæli Hafrannsóknastofnunar.

 

Mörk korts 426 færast einnig, en helsta breytingin er sú að nýjar mælingar leysa af hólmi eldri mælingar sem voru allt frá 1907 og náðu yfir stærstan hluta kortsins.

 

Ný útgáfa af kortum 31 og 44 komu einnig út. Kort 31 var uppfært með nýjustu mælingum sem til eru af svæðinu, ásamt því að skipt var um landupplýsingar, þ.e. hæðarlínur, byggð og vegi, en þessar upplýsingar koma m.a. frá Landmælingum Íslands, Reykjavíkurborg og öðrum þéttbýlisstöðum sem eru á kortinu.

 

Kort 44 er elsta sjókortið sem gefið er út af stofnuninni. Það kom fyrst út 1915 (Udgivet af det kongelige Sökort – Arkiv, Köbenhavn 1915.  Endurprentað hjá Íslensku sjómælingunum, Reykjavík 1961).  Nýjar mælingar voru settar inn umhverfis Elliðaey og á Bjarneyjarflóa í átt til Flateyjar. Þetta er síðasta sjókortið sem í eru teiknaðar myndir af miðum og eitt af fimm  kortum sem enn er í notkun frá dögum danskrar sjókortagerðar við Ísland. Öll voru þau upphaflega gerð með koparstungu.

 

Þessi sjókort eiga eftir að auka öryggi sjófarenda við strendur Íslands.

 


Sjöfn Axelsdóttir og Þórður Gíslason kortagerðarmenn báru hitann og þungann af gerð korta 37 og 426 ef frá er talin áhöfn sjómælingabátsins Baldurs.

 

 

Nýtt sjókort nr. 37 Hjörsey – Stykkishólmur.

 

Dæmi um mið í korti 44