Sjúkraflug vegna hjartveiks skipverja um borð í Sigurbjörgu ÓF-1

Mánudagur 24. maí 2004.

Þyrla Landhelgisgæslunnar TF-SIF sótti í kvöld hjartveikan skipverja um borð í togarann Sigurbjörgu ÓF-1 sem var að grálúðuveiðum djúpt vestur af Látrabjargi.

Þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar var kölluð út kl. 14:46 eftir að skipstjóri hafði látið vita af hjartveikum manni um borð og læknir hafði metið nauðsynlegt að sækja manninn.  Skipið var þá statt 195 sjómílur frá Reykjavík eða 105 sjómílur frá Bjargtöngum.

Stóra þyrla Landhelgisgæslunnar er í viðgerð og því var TF-SIF notuð að þessu sinni. Þar sem um langt flug var að ræða var nauðsynlegt að koma við á Rifi til að taka eldsneyti. 

TF-SIF fór í loftið frá Reykjavíkurflugvelli kl. 15:22 og lenti á Rifi kl. 15:54. Þaðan var haldið kl. 16:13 eftir að eldsneyti hafði verið sett á vélina. Búið var að hífa sjúklinginn um borð kl. 17:26 og lenti þyrlan á Reykjavíkurflugvelli kl. 19:13 eftir millilendingu á Rifi þar sem aftur varð að taka eldsneyti.  Á Reykjavíkurflugvelli beið sjúkrabíll sem flutti manninn á Landspítala Háskólasjúkrahús.

Dagmar Sigurðardóttir
fjölmiðlaftr.