Slasaður skipverji sóttur um borð í togarann Guðmund í Nesi

Þriðjudagur 18. maí 2004.

Skipstjóri togarans Guðmundar í Nesi hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 14:23 í dag og tilkynnti að skipverji hefði slasast á hendi við vinnu sína. Skipið var þá statt rúmlega 100 sjómílur vestur af Látrabjargi. 

Læknir í þyrluáhöfn hafði þegar samband við skipið og gaf upplýsingar varðandi lyfjagjöf og sáraumbúðir.  Talið var réttast að sækja manninn með þyrlu. 

Áhöfn TF-SIF var kölluð út kl. 14:47 og var togaranum siglt í átt til Reykjavíkur.  Viðgerð hafði staðið yfir á TF-SIF og var óvíst hvort næðist að klára hana í tæka tíð. Þess vegna var varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli tilkynnt um slysið og þyrluáhöfn beðin um að vera í viðbragðsstöðu.

Um kl. 15:20 var TF-SIF tilbúin og fór hún í loftið kl. 16:13.  Þá var togarinn staddur 108 sjómílur frá Öndverðarnesi og var óskað eftir að hann héldi í átt að Rifi.

TF-SIF lenti á Rifi kl. 16:51 og tók eldsneyti.  Þar næst var haldið að skipinu og hinn slasaði hífður um borð í þyrluna. TF-SIF lenti við flugskýli Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvelli kl. 19:50 og þar beið sjúkrabíll sem flutti slasaða skipverjann á Landspítala Háskólasjúkrahús.

Dagmar Sigurðardóttir
fjölmiðlaftr.