Skipverji bjargaðist er bátur hans sökk - Þyrla hélt af stað til bjargar

Sunnudagur 14. desember 2003.

Neyðarlínan hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 18:04 og upplýsti bátur hefði sent út neyðarkall gegnum sjálfvirkt tilkynningarkerfi (STK) Tilkynningarskyldunnar og hann væri í miklum háska. Gefin var upp staðsetning bátsins en hann var staddur á Breiðafirði.  Mínútu síðar lét Tilkynningarskyldan stjórnstöð vita að um væri að ræða fiskibátinn, Hólmarann SH-114, búið væri að ræsa út björgunarsveit og að bátur í grennd væri á leið á staðinn. 

Þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar var kölluð út með bráðaútkalli kl. 18:07 og fór TF-LIF í loftið kl. 18:40.  Tilkynningarskyldan lét vita kl. 18:52 að búið væri að bjarga manninum upp í nærstaddan bát. 

Eini skipverjinn sem var um borð hafði bjargað sér í gúmmíbát og var bátur hans, Hólmarinn, sokkinn kl. 18:54. Staðfest var að engir fleiri hefðu verið um borð. Þá var þyrlunni snúið í átt til Reykjavíkur og lent þar kl. 19:13.  Þyrlan átti aðeins 10 mínútna flug eftir á slysstað þegar upplýst var að manninum hefði verið bjargað heilum á húfi um borð í bátinn Ársæl SH, og ekki væri þörf aðstoð hennar lengur.

Dagmar Sigurðardóttir
fjölmiðlaftr.