Skipstjóri dæmdur ábyrgur vegna vanmönnunar skips þar sem stýrimaður og vélstjóri höfðu ekki gild atvinnuréttindi

Fimmtudagur 20. nóvember 2003.

Hæstiréttur staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Reykjavíkur sem kveðinn var upp 3. janúar á þessu ári þar sem skipstjóri var sakfelldur fyrir að hafa látið úr höfn á skipinu V ,,vanmönnuðu vegna þess að 2. stýrimaður og yfirvélstjóri höfðu eigi gild atvinnuréttindi".  Með því braut hann nánar tilgreind ákvæði laga 112/1984 um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum og laga nr. 113/1984 um atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða á íslenskum skipum.  Talið var að refsiheimildir laganna væru nægilega skýrar og að skipstjórinn hefði unnið sér til refsingar fyrir þá háttsemi sem hann var ákærður fyrir.  Þótti refsing hans hæfilega ákveðin 100 þúsund krónur í sekt.  Einnig var hann dæmdur til að greiða málsvarnarlaun verjanda síns, 150 þúsund krónur og allan áfrýjunarkostnað málsins.

Upphaf málsins var það að skipstjórinn hélt til veiða föstudaginn 3. maí 2002.  Varðskip Landhelgisgæslunnar, Óðinn, kom að skipinu að togveiðum á Reykjaneshrygg viku síðar.  Fóru stýrimaður og háseti varðskipsins um borð í togarann til eftirlits og komu þá framangreindar sakir í ljós. 

Í Hæstaréttardóminum segir: 

Óumdeilt er að 2. stýrimaður og yfirvélstjóri V höfðu ekki gild atvinnuréttindi þegar landhelgisgæslan kom að skipinu að veiðum á Reykjaneshrygg 10. maí 2002. Eins og nánar er lýst í hinum áfrýjaða dómi ber skipstjóri eftir 1. mgr. 6. gr. siglingalaga nr. 34/1985 meðal annars ábyrgð á því að skip hans sé „nægilega mannað“. Samkvæmt 3. mgr. 1. gr. laga nr. 112/1984, sbr. 1. gr. laga nr. 62/1995, ber skipstjóri á íslensku skipi „fulla ábyrgð á framkvæmd laga þeirra og reglna sem lúta að starfi hans og settar eru af þar til bærum stjórnvöldum.” Nær ábyrgð skipstjóra samkvæmt þessu ákvæði bæði til framkvæmdar laganna sjálfra og annarra laga, sem fjalla um starfsskyldur hans, svo sem laga nr. 113/1984, laga nr. 43/1987 og siglingalaga. Ber skipstjóri þannig eftir b. lið I. 4. gr., 6. gr. og 13. gr. laga nr. 112/1984 með áorðnum breytingum og 2. gr. og 3. gr. laga nr. 113/1984 ábyrgð á því að tilskilinn lögmæltur fjöldi lögskráðra stýrimanna og vélstjóra með gild atvinnuréttindi séu í hverri veiðiferð. Með þessari athugasemd og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er á það fallist að refsiheimildir samkvæmt 22. gr. laga nr. 112/1984 og 1. mgr. 14. gr. laga nr. 113/1984 séu nægilega skýrar og að ákærði hafi unnið sér til refsingar fyrir þá háttsemi sem hann er ákærður fyrir og eftir þeim lagaákvæðum, sem í ákæru greinir. Verður ákvörðun héraðsdóms um refsingu ákærða og sakarkostnað staðfest.

Dómurinn í heild sinni er birtur á heimasíðu Hæstaréttar en hann er nr. 219/2003.