Sprengingin kom fram á jarðskjálftamælum

Föstudagur 3. október 2003.

 

Annarri djúpsjávarsprengjunni, sem kafarar og sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar fundu út af Hliðsnesi á Álftanesi, var eytt kl. 17:45 í dag.  Sprengingin var svo öflug að hún kom fram á jarðskjálftamælum Veðurstofunnar og mældist 1.6 á Ricther.

 

Starfsmenn Landhelgisgæslunnar hófu snemma í morgun að undirbúa eyðingu djúpsjávarsprengjanna tveggja sem fundust út af Hliðsnesi á Álftanesi. Sprengjusérfræðingar og kafarar Landhelgisgæslunnar fóru um borð í varðskip í Hafnarfjarðarhöfn og fór varðskipið frá bryggju fimm mínútur fyrir átta.  Þá var gert ráð fyrir að hægt yrði að eyða sprengjunum um hádegisbilið.

 

Farið var á slöngubát að staðnum kl. 9:41 og rétt fyrir kl. 10 hófu kafarar að athafna sig.  Þann 1. október sl., er þeir voru að rannsaka svæðið, höfðu þeir sett bauju á staðinn þar sem önnur sprengjan fannst svo auðvelt var að finna hana aftur.  Sú sprengja var síðan fest við flotpramma. 

 

Fram eftir degi reyndu kafararnir árangurslaust að finna hina sprengjuna en allt kom fyrir ekki.  Um kl. 14:16 var ákveðið að hefjast handa við að lyfta þeirri sprengju sem komið hafði í leitirnar innan einnar klukkustundar og var lögregla látin vita um það.

 

Kl. 15:09 var verið að lyfta sprengjunni og 40 mínútum síðar var byrjað að draga hana fjær landi.  Eins og gefur að skilja varð að draga hana hægt og rólega og var hún færð alls 1 sjómílu frá strönd. 

 

Eftir það var ákveðið að halda áfram að leita að hinni sprengjunni en það gekk ekki vel sökum lélegs skyggnis neðansjávar og mikils þara og var að lokum ákveðið að hætta leit vegna öryggis kafaranna.

 

Um kl. 15:48 sigldi skúta fyrir Valhúsagrunnsbauju og svaraði ekki kalli þannig að stýrimaður á léttabát varðskipsins hélt á eftir henni til að koma í veg fyrir að hún færi inn á hættusvæðið.

 

Tæpum hálftíma síðar eða um kl. 16:30 byrjuðu sprengjusérfræðingar að koma sprengiefni fyrir á flotprammanum og kl. 17:45 sprakk sprengjan og kom há súla uppúr sjónum með tilheyrandi drunum og höggbylgju.

 

Sprengjusérfræðingar og kafarar Landhelgisgæslunnar ráðgera að leita að hinni djúpsjávarsprengjunni eftir helgina og eyða henni.  Sú sprengja er ekki eins hættuleg og sú sem var eytt í dag því að kveikibúnaðinn vantar á hana.

 

Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi

Landhelgisgæslu Íslands

 

 

 

Mynd: (C) MOTIV-MYND, Jón Svavarsson.
jonmotiv@emax.is Frétta og ljósmyndaþjónusta.