Þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð út vegna strands Berglínar

Miðvikudagur 29. janúar 2003.

Kl. 09:17 heyrðu starfsmenn stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar tilkynningu frá Berglínu GK-300 á rás 16 þar sem upplýst var að drepist hefði á vélum togarans í innsiglingunni til Sandgerðis.  Reykjavíkurradíó ræsti þegar út björgunarskip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, Hannes Hafstein, og fleiri bátar komu til aðstoðar. Í fyrstu var ekki talið að um alvarlega hættu væri að ræða vegna fjölda báta sem komu til aðstoðar.  Tilraunir til að draga togarann mistókust hins vegar í fyrstu þar sem línur slitnuðu og akkerisfestar gáfu sig.

Þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar var kölluð út kl. 10:05 er togarinn var strandaður og ljóst að um neyðarástand var að ræða.  Varnarliðinu var einnig gert viðvart og það var reiðubúið að koma til aðstoðar ef með þyrfti.  Stuttu eftir að TF-LÍF var komin á loft, kl. 10:17, kom Berglín vélum í gang og sigldi út úr strandinu með aðstoð björgunarskipsins Hannesar Hafstein sem nú fylgir Berglínu til Keflavíkur. TF-LÍF fór á staðinn og fullvissaði áhöfn þyrlunnar sig um að hennar aðstoðar væri ekki þörf áður en haldið var til Reykjavíkur.  TF-LÍF lenti á Reykjavíkurflugvelli kl. 10:54. 

Skipstjóri Berglínar telur að enginn leki hafi komið að bátnum.

Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi
Landhelgisgæslu Íslands