Þrír menn fluttir með þyrlu eftir köfunarslys

Miðvikudagur 4. september 2002.

Í gærkvöldi, kl. 21:22 hafði Neyðarlínan samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar vegna þriggja manna sem höfðu lent í köfunarslysi í Kleifarvatni. Áhöfn TF-LÍF var þegar kölluð út og fór þyrlan í loftið 15 mínútum síðar. Hún var komin á slysstað 25 mínútum eftir að stjórnstöð Landhelgisgæslunnar bárust upplýsingar um slysið.

Einn kafarann var mjög þungt haldinn og hafði læknir á slysstað veitt honum hjálp og undirbúið hann undir flutning. Hann hafði orðið loftlaus á 56 metra dýpi og þurfti að hraða sér upp á yfirborðið með þeim afleiðingum að hann fékk svokallaða kafaraveiki. Grunur lék á að félagar hans væru einnig veikir og voru þeir allir þrír fluttir með TF-LÍF á Landspítala Háskólasjúkrahús en þar lenti þyrlan kl. 22:08.

Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi
Landhelgisgæslu Íslands