Sprengjusérfræðingar kallaðir út tvisvar sömu nóttina

Þriðjudagur 6. ágúst 2002.

Sprengusérfræðingar Landhelgisgæslunnar voru tvisvar kallaðir út í nótt vegna grunsamlegra hluta í flugstöð Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli en eins og kunnugt er sér Landhelgisgæslan alfarið um sprengjueyðingu fyrir varnarliðið á Keflavíkurflugvelli.    Fyrra kallið kom kl. 2 en það var vegna tösku sem fannst í sæti á biðstofu í flugstöðinni.  Svæðið var rýmt og sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar notuðu röntgentækni til að kanna innihald töskunnar sem reyndist saklaust.  Í töskunni voru eigur gestkomandi flugmanns.   Rannsókn málsins lauk kl. 4:30.

Seinna útkallið átti sér stað kl. 6:55 en þá hafði fundist grunsamleg taska í húsnæði hermanna og fjölskyldna þeirra.  Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar rannsökuðu töskuna og reyndist hún innihalda íþróttafatnað. 

Vegna stöðu mála í heiminum í dag er almennt litið svo á að töskur eða aðrir grunsamlegir hlutir sem skildir eru eftir á almannafæri innan varnarsvæðisins séu til þess ætlaðir að skaða hermenn eða fjölskyldur þeirra. 

Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi
Landhelgisgæslu Íslands