Leitað að týndum manni á Skjálfanda

Föstudagur 28. júní 2002. Kl. 11:00.

Um kl. 1:48 í nótt hafði lögreglan á Húsavík samband við stjórnstöð Landhelgisgæslu Íslands vegna manns sem hafði farið út á sjó á kajak frá Flateyjardal um þrjúleytið í gær og ekkert hefur spurst til síðan.  Hann hafði ætlað að vera kominn heim til sín um kl. 20.  Óskað var eftir aðstoð Landhelgisgæslunnar við leit að manninum. Þar sem flugáhafnir Landhelgisgæslunnar voru bundnar í öðru verkefni var haft samband við flugstjórn og var flugvél Flugmálastjórnar send af stað til leitar.

Sérstök beiðni lögreglunnar á Húsavík um aðstoð þyrlu Landhelgisgæslunnar til leitar að manninum kom um fimmleytið í morgun og þá þegar var flugvél Flugmálastjórnar, TF-FMS, á svæðinu við leit að beiðni Landhelgisgæslunnar.  Flugmálastjórnarvélin hefur meiri flughraða en þyrlur og meira flugþol. Hún var því heppilegri kostur en þyrla eins og aðstæður voru.

Í morgun var einnig haft samband við danska eftirlitsskipið Vædderen sem tekur þátt í æfingunni Samvörður 2002 og er þyrla frá skipinu á leið til Húsavíkur til leitar og er áætlað að hún verði á leitarsvæðinu um kl. 11.  Samvinna Landhelgisgæslunnar og danska sjóhersins byggist á sérstökum samstarfssamningi um leit og björgun.

Dagmar Sigurðardóttir
upplýsingafulltrúi