Sjóliðsforingjaefni frá Úkraínu fá þjálfun um borð í varðskipum Landhelgisgæslunnar

Fimm sjóliðsforingjaefni voru nýverið hér á landi.

  • IMG_5252

15.3.2024 Kl: 11:42

Ísland annast þjálfun úkraínskra sjóliðsforingjaefna um borð í varðskipum Landhelgisgæslunnar. Sjóliðsforingjaefnin hafa undanfarið verið um borð í varðskipum Gæslunnar þar sem þeir hafa fengið verklega þjálfun í siglingafræði, eftirliti og aðgerðum á hafi, m.a. leit og björgun.

Verkefnið er hluti af þjálfunarverkefni Atlantshafsbandalagsins og sér Landhelgisgæsla Íslands um framkvæmdina í samstarfi við varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins.

,,Utanríkisráðuneytið leitaði til Landhelgisgæslunnar varðandi þjálfun sjóliðsforingjaefnanna og við tókum þessu mikilvæga verkefni fagnandi. Hingað til lands komu fimm ungir menn frá Úkraínu sem voru hluti af áhöfn varðskipsins Þórs í síðasta úthaldi. Þeir hlutu margvíslega þjálfun um borð og fengu að kynnast íslensku sjólagi og aðstæðum." Segir Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar. 

Sjóliðsforingjaefnin tóku þátt í verklegum æfingum áhafnarinnar þar sem áhersla var lögð á leit- og björgun í samstarfi við þyrlusveit. Auk þess sem þeir fengu að kynnast hvernig eldar eru slökktir um borð í skipum, fengu leiðsögn í siglingafræðum hér við land og öðluðust reynslu í eftirliti og aðgerðum á hafi svo fátt eitt sé nefnt. 

,,Verkefnið gekk sérlega vel og við hlökkum til að taka á móti næsta hópi. Þetta er afar mikilvægt framlag Íslands og Atlantshafsbandalagsins sem við erum stolt að taka þátt í. Það er ánægjulegt að hægt sé að miðla þeirri miklu þekkingu og reynslu sem er til staðar um borð í varðskipum Landhelgisgæslunnar með þessum hætti“ Segir Georg

Landhelgisgæslan harmar að andlit sjóliðsforingjaefnanna hafi birst óskyggð á samfélagsmiðlum fyrr í mánuðinum. Gestir sem heimsóttu varðskipið Þór fengu ekki viðunandi leiðbeiningar varðandi myndbirtingu um borð í skipinu og er það á ábyrgð Landhelgisgæslu Íslands.