Þór til móts við Akurey

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst á þriðja tímanum í nótt símtal frá skipstjóra togarans Akurey AK-10 til að grennslast fyrir um möguleika á aðstoð varðskips. Skipið var þá statt úti fyrir Faxaflóa. Fyrr um kvöldið hafði það fengið í skrúfuna og fest trollið. Ottó N. Þorláksson RE-203 kom skömmu síðar þar að og tók Akureyna í tog.

Upp úr klukkan hálffjögur hafði áhöfn Akureyjar aftur samband við stjórnstöð og hafði þá veðrið versnað töluvert og horfurnar enn verri. Ljóst var að það tæki varðskipið Tý, sem er nú við eftirlit á loðnumiðunum fyrir austan land, rúman sólarhring að komast á vettvang. Landhelgisgæslan er að öllu jöfnu aðeins með eitt varðskip á sjó en í ljósi aðstæðna var ákveðið að kalla saman áhöfn svo varðskipið Þór gæti farið og aðstoðað við dráttinn á Akurey. Um leið var haft samband við grænlenska fiskiskipið Tasermiut, sem er á þessum slóðum líka, til að upplýsa um stöðuna og athuga hvort skipið gæti verið til taks ef með þyrfti.

Þór lagði úr höfn laust yfir klukkan tíu í morgun og mættust svo skipin skömmu fyrir hádegi skammt út af Garðskaga. Þór fylgdi þeim svo til hafnar í Reykjavík og voru þau komin þangað síðdegis. 

Vegna þessara óvenjulegu kringumstæðna var ekki um hefðbundna áhöfn að ræða á Þór. Á meðal varðskipsmanna í þessari sjóferð voru til dæmis tveir liðsmenn sprengjueyðingarsveitar Landhelgisgæslunnar, sem báðir eru þó þaulreyndir sjómenn. Rétt er þó að ítreka að engin sprengihætta var á ferð heldur vantaði vana sjómenn til að fullmanna skipið. Þá komu þrír skipverjar sem búsettir eru á Norðurlandi með áætlunarflugi til Reykjavíkur í morgun.